Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:37:23 (3523)

1998-02-05 17:37:23# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:37]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Tilvitnun sem hv. þm. var með er vitaskuld rétt og þar segir skýrt eins og hann las ,,með tíð og tíma``. Og alveg eins og ég gat um áðan að þegar fiskveiðiarður hefur aukist, þá verður hægt að hækka gjaldtöku í sjávarútvegi úr þessum 2 milljörðum. Þarna verða menn að vera sanngjarnir og ég veit að hv. þm. er það.

Við höfum talað um að hægt er að taka gjald af auðlindum þessa lands. Það er hægt að gera það smátt og smátt eftir því sem tök eru á því gagnvart atvinnugreinunum. Umræðan hefur verið hvað skörpust í sambandi við sjávarútveg. Það hefur aldrei verið stefna jafnaðarmanna að leggja eitthvað í rúst í sambandi við sjávarútveg. Þetta er fráleitur málflutningur og ég er þó mest hissa á því að þingmenn Alþb. skuli taka undir þessa hagsmunagæslu útgerðarmanna sem vitaskuld vilja ekki greiða krónu fyrir veiðileyfi eins og þeir fá afhent ókeypis í dag. Ég skil þeirra afstöðu. Ég skil afstöðu LÍÚ. En það að þingmenn Alþb. skuli ganga fram fyrir skjöldu með Kristjáni Ragnarssyni í því að viðhalda hér gjafakvótakerfinu, því botna ég hreinlega ekki í, enda eru nú ýmsir alþýðubandalagsmenn annarrar skoðunar.

Mig langar að lokum að vitna í einn frægasta vísindamann Norðmanna á sviði fiskihagfræði, Ole Flåten, og í Morgunblaðinu um daginn var grein eða frásögn þar sem hann leggur til veiðileyfagjald í norskum sjávarútvegi, og talar um að eðlilegt gæti verið að ræða um 5 milljarða. Ef hlutfallsreikningi væri beitt, þá er þetta svona álíka aðferðafræði og við erum með, svolítið tekið út úr greininni, ekki of mikið og ekki of íþyngjandi því að það er það sem við erum að gera. Við erum að tala um hóflega gjaldtöku sem má okkar vegna fyrst renna til umhverfismála til að gæta að auðlindinni en á líka að dreifast sem arður til þegna landsins af sameiginlegum auðlindum og þar sker kannski á milli í skoðunum einstakra manna.

Sá stóri flokkur sem við ætlum að reyna að búa til rúmar margar skoðanir og auðvitað eiga menn að vera með ágreiningsefni í þeim flokki. Það er sjálfsagt og eðlilegt.