Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:42:10 (3525)

1998-02-05 17:42:10# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð merkilegt sem hefur verið að gerast í umræðunum í dag. Það merkilega er að tveir þingmenn Alþb., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Ragnar Arnalds, hafa lagt sig í framkróka um að ráðast sérstaklega á Alþfl. Það er eins og þeir séu hættir í andstöðu við ríkisstjórnina og allt í einu farnir í stjórnarandstöðu við Alþfl. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvernig stendur á þeim taugatitringi hv. þm. að þeir eru hættir í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn en eru komnir í stjórnarandstöðu við Alþfl.? (Gripið fram í: Góð ríkisstjórn!)

Það er margt merkilegt, virðulegi forseti, við frv. til stjórnarskipunarlaga sem þingmenn Alþb. flytja. Hvað er merkilegast við það? Það vantar tvo. Formaður Alþb. flytur þetta frv. ekki. Hvernig stendur á því? Skyldi það vera vegna þess að hún sé ósammála öðrum þingmönnum flokksins um að ekki eigi að gera ráð fyrir því að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild af auðlindagjaldi? Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að formaður Alþb. og formaður þingflokks Alþb. flytja ekki þetta frv. með Ragnari Arnalds og félögum, sem eru nú allt í einu komnir í stjórnarandstöðu fyrst og fremst við Alþfl.? Skyldi það ekki vera vegna þess að formaður Alþb. er ekki á sömu skoðun um hvernig skilgreina eigi auðlindagjöld eins og flutningsmenn þessa frv.?