Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:43:56 (3526)

1998-02-05 17:43:56# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:43]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. 4. þm. Vestf. Sighvat Björgvinsson um að bæði formaður Alþb. og formaður þingflokks Alþb. styðja það frv. sem hér er til umræðu. Ég vek á því athygli að frá því hefur verið skýrt í fjölmiðlum hvað eftir annað að formaður Alþb. hafi haft í undirbúningi sérstakt lagafrv. um athugun á álagningu auðlindagjalds. Ég get upplýst það að í því lagafrv. hefur einmitt verið talað um hóflegt auðlindagjald eða réttlátt auðlindagjald og ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. að formaður flokksins eða formaður þingflokksins séu andvígir þessu frv. sem ég hef lagt fram. Þetta frv. hefur út af fyrir sig aldrei verið flutt af öllum þingflokki Alþb. í gegnum árin enda er það kannski ekki alltaf gert. Það er einhver hópur sem tekur sig saman um að flytja mál og þetta er á misskilningi byggt.

Mér finnst hins vegar að formaður Alþfl. verði að sætta sig við það að verk hans eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en annarra og þegar okkur alþýðubandalagsmönnum mislíkar tillöguflutningur eða málflutningur þeirra alþýðuflokksmanna þá hljótum við að hafa uppi gagnrýni til þess um leið að gera grein fyrir okkar afstöðu og hver væri munurinn á tillöguflutningi þeirra og tillöguflutningi okkar. Það er slæmt að okkar dómi að fólk rugli hugmyndinni um auðlindagjald sem við höfum verið að flytja saman við hina hugmyndina, sem þeir alþýðuflokksmenn hafa verið málsvarar fyrir. Þar af leiðir að við verðum að taka þátt í umræðum þó að báðir flokkarnir séu í stjórnarandstöðu.