Minnst Halldórs Kiljans Laxness

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 15:01:35 (3539)

1998-02-09 15:01:35# 122. lþ. 61.98 fundur 206#B minnst Halldórs Kiljans Laxness#, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Í gær, 8. febrúar, lést Halldór Kiljan Laxness, tæplega 96 ára að aldri. Þegar Íslendingar horfa aftur til 20. aldar munu þeir flestir staldra við nafn hans, ekki vegna þess að hann var nánast samtíða öldinni heldur vegna þess að hann bar vonir hennar, þrár og drauma og jafnvel martraðir í sjálfum sér og orðaði þær af fágætri snilld.

Þegar hann gaf út fyrstu stóru skáldsöguna sína var sagt: Loksins, loksins. Og verk hans mörkuðu vissulega tímamót í íslenskum bókmenntum. Á fjórða, fimmta og sjötta áratug aldarinnar gaf Halldór Laxness út hverja skáldsöguna af annarri þar sem hvort tveggja var rammíslenskt, yrkisefni og efnistök. Hið mikla vald hans á íslensku máli, endurnýjunarmáttur hans og sköpunargleði og orðkynngi samfara næmu skopskyni veldur því að menn munu njóta verka hans um ókomna tíð. Þótt Halldór segði sjálfur í Ljósvíkingnum að fegurðin og mannlífið væru tveir elskendur sem fengju ekki að hittast má ýkjulaust segja að fegurðin og mannlífið hafi hist í verkum hans.

Þjóðin átti ekki alltaf öll samleið með skáldinu en hún samfagnaði Halldóri Laxness innilega þegar hann hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955. Hann var lifandi stórveldisdraumur lítillar þjóðar, ein röksemdin fyrir áframhaldandi sjálfstæði hennar og tilveru.

Þegar Halldór tók við Nóbelsverðlaunum sagði hann að honum yrði nú hugsað til þeirrar fámennu fjölskyldu, hinnar bókelsku þjóðar Íslands sem haft hefði á honum vakandi auga um langan aldur, hefði gagnrýnt hann eða talið í hann kjark á víxl. Eins hlýtur okkur nú, þegar leiðir skilja, að verða hugsað til þessa snjalla rithöfundar sem hafði vakandi auga á okkur, gagnrýndi okkur og taldi í okkur kjark á víxl.

Allt líf Halldórs Laxness var eitt stórbrotið ferðalag en hvar sem hann var staddur þrumaði hann yfir okkur þrunginn af ættarjarðarást, sannfærandi og sefjandi.

Um leið og ég votta fjölskyldu hans og raunar Íslendingum öllum samúð vegna fráfalls hans bið ég hv. alþingismenn að rísa úr sætum í virðingarskyni við hið látna þjóðskáld. --- [Þingmenn risu úr sætum.]