Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:37:07 (3560)

1998-02-09 18:37:07# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér virðist tvennt vera alveg ljóst af viðbrögðum hæstv. forsrh. og fleiri stjórnarsinna. Það fyrra er, og það á sérstaklega við um hæstv. forsrh., að hæstv. forsrh. getur ekki sætt sig við að ráða ekki bæði lögum og lofum. Það er ósköp einfaldlega þannig að ef eitthvað annað gerist en það sem hæstv. forsrh. hefur ákveðið fer allt í hnút hjá honum og við sjáum birtast þann mann sem talaði áðan og sama manninn og sleit þinginu og sendi það heim í fússi áður en forseti fékk að flytja lokaræðu sína vorið 1992.

Hið síðara er að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar eru að reyna að snúa málinu við í ljósi þeirrar ofboðslegu framkomu sem hæstv. ríkisstjórn sýnir með lagasetningu sinni og íhlutun þar sem verkfalli er ekki frestað heldur aflýst og verkfallsrétturinn tekinn af mönnum um mánaðarskeið, að reyna að snúa þessu upp á stjórnarandstöðuna. Það mun ekki takast. Þjóðin mun sjá í gegnum þetta.

Ég vek svo að lokum, herra forseti, athygli á því að hæstv. forsrh. gaf sér að með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, sem fór fram á fundinum, væri ákveðið að málið kæmi ekki fyrir fyrr en á miðvikudag. Það er ekki svo. Það sem hefur gerst er eingöngu það að fundurinn hefur hafnað því að taka málið fyrir með afbrigðum og annað hefur ekki verið ákveðið. Það er þá hæstv. forsrh. sjálfur sem er í því skyni að koma höggi á stjórnarandstöðuna og velta ábyrgðinni af eigin herðum að reyna að láta líta svo út sem að þar með hafi málið verði afgreitt með þessum hætti. (Gripið fram í: Hvenær má taka málið fyrir?)

(Forseti (ÓE): Við skulum hafa hljóð í salnum.)

Þegar Alþingi ákveður að gera eitthvað annað en það sem það ákvað núna, þá hefur það fullt vald til þess, hv. frammíkallandi. Það er alveg ljóst. Það sem hér hefur verið gert er ósköp einfaldlega að fella það að taka málið fyrir með afbrigðum á fundinum. Um það snerist atkvæðagreiðslan. Ég held að það sé alveg skýrt.