Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 13:31:56 (3569)

1998-02-10 13:31:56# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[13:31]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Tillagan er á þskj. 649. Þessi áætlun til fjögurra ára er um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna og hún er lögð fyrir Alþingi samkvæmt ákvæði 17. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála er eitthvert mikilvægasta tæki jafnréttisráðherra, ríkisstjórnarinnar allrar og raunar Alþingis til að stuðla að jafnrétti kynjanna. Því skiptir miklu að vel sé til tillögunnar vandað. Í jafnréttislögum er kveðið á um að við gerð framkvæmdaáætlunar sé leitað tillagna einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs.

Ég mat það svo að ekki væri fært að setja upp verkefnalista framkvæmdaáætlunar án þess að heyra hvað almenningur vildi í þeim efnum og jafnframt, til þess að reyna að koma á almennri umræðu sem víðast í þjóðfélaginu, efndi ég til fundahalda um jafnréttismál til undirbúnings þessari jafnréttisáætlun. Fundir voru haldnir á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Varmahlíð, Ísafirði, Borgarnesi, Keflavík og í Reykjavík. Jafnréttis- eða félagsmálanefndir sveitarfélaganna á hverjum stað aðstoðuðu félmrn. við undirbúning þessara funda.

Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að þarna komu fram margar gagnlegar hugmyndir og þeirra sér stað í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.

Jafnréttismál hafa talsvert verið til umræðu í samfélaginu á undanförnum missirum og það er afar mikilvægt að stjórnvöld séu meðvituð um þarfir og vilja samfélagsins í jafnréttismálum. Vissulega ber stjórnvöldum að sýna fordæmi og hafa frumkvæði að aðgerðum til að koma á jafnrétti kynjanna þó engum dyljist að jafnrétti verður ekki tryggt með stjórnvaldsaðgerðum einum. Nauðsynlegt er að allir leggist á eitt.

Samhliða þeim fundum sem ég gat um áðan var að störfum starfshópur fulltrúa ráðuneytanna og skrifstofu jafnréttismála. Þessi starfshópur skilaði tillögum sínum að framkvæmdaáætlun til Jafnréttisráðs. Tillögur Jafnréttisráðs voru síðan sendar til umsagnar til annarra ráðuneyta. Viðbrögð ráðuneytanna voru nokkuð mismunandi. Ýmist var nýjum heildstæðum tillögum að verkefnalista í framkvæmdaáætlun skilað inn eða lagðar fram breytingar á tillögu Jafnréttisráðs. Allar ábendingar ráðuneytanna hafa verið teknar til greina við lokafrágang þál. Ég tel það styrk þessarar framkvæmdaáætlunarinnar að öll ráðuneytin séu fús að leggja í þau verkefni sem þar eru tilgreind. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru einbeittir í því að beita sér fyrir þeim, hver á sínu sviði.

Þessi áætlun er afrakstur virks samstarfs allra ráðuneyta, skrifstofu jafnréttismála og fólksins sem tók þátt í fundunum okkar um allt land. Enn fremur er erlendu samstarfi á sviði jafnréttismála sinnt og það setur mark sitt á framkvæmdaáætlunina. Í fylgiskjali I með tillögunni er gerð grein fyrir helstu verkefnum á þeim vettvangi. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála er mikilvægt stjórntæki. Það er mikilvægt að verkefni hennar tryggi aðgerðir þar sem þörfin er mest.

Í inngangskafla framkvæmdaáætlunarinnar segir að leiðarljós hennar sé að flétta sjónarmið jafnréttis inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Hér er um mjög mikilvægt atriði að ræða sem gefur allri framkvæmdaáætluninni aukið vægi. Því er mikilvægt að skilgreina sérstök verkefni sem stuðlað geti að auknu jafnrétti kvenna og karla. Rétt er að minna á að jafnrétti verður aldrei tryggt fyrr en það er samþætt öllum verkefnum okkar. Eins skal minnt á að framkvæmdaáætlunin getur, eðli málsins samkvæmt, aldrei verið tæmandi upptalning á sértækum verkefnum sem ríkisstjórnin þarf að vinna á vettvangi jafnréttismála.

Í I. kafla framkvæmdaáætlunarinnar eru sérstaklega tilgreind tvö meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, annars vegar samvinna karla og kvenna og hins vegar samþætting jafnréttissjónarmiða í alla stefnumótun og ákvarðanatöku. Hvort tveggja er mikilvægt fyrir framkvæmd jafnréttismála og í raun nauðsynleg forsenda þess að árangur náist.

Í II. kafla framkvæmdaáætlunarinnar eru verkefni ríkisstjórnarinnar tíunduð. Þau varða starfsemi allra ráðuneyta og leggja meginlínurnar í stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Ríkisstjórnin hefur fjallað um áætlunina á þremur fundum og á milli funda hafa ráðherrar lagt fram ýmsar breytingar á verkefnalistum ráðuneyta sinna og ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að vinna sérstaklega að fjórum verkefnum sem mynda eina heild.

Í fyrsta lagi skal unnið að kyngreiningu allra tölulegra gagna. Gagnasöfnun og úttekt á stöðu mála er grundvallaratriði í allri réttindabaráttu. Séu upplýsingar greindar eftir kyni má ráða ýmislegt af þeim er varðar bæði stöðu og stefnu í jafnréttismálum. Í framkvæmdaáætluninni er lagt til að öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum verði gert að greina upplýsingar eftir kyni í tölfræðilegum samantektum og skýrslum.

Í öðru lagi verði kannað hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Eins og áður sagði leggur ríkisstjórnin áherslu á að við alla stefnumótun og ákvarðanatöku sé jafnrétti kynjanna haft í huga. Til að hægt sé að meta hvar úrbóta er þörf er lagt til að ríkisstjórnin skipi nefnd sem falið verði að kanna hvort og hvernig opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna.

Þriðja atriðið varðar jafnrétti hjá ríkisstofnunum. Á undanförnum missirum hefur ítrekað verið sýnt fram á kynbundinn launamun á vinnumarkaði. Afar brýnt er að uppræta þennan mun og hefur ríkisstjórnin lagt til að í samningum milli ráðuneyta og stofnana og í erindisbréfum forstöðumanna ríkisstofnana verði sérstaklega vakin athygli á jafnréttissjónarmiðum í þeim tilgangi.

Í fjórða lagi er lagt til að rannsókn verði gerð á stöðu kvenna hvað varðar efnahagsleg völd. Oft hefur verið haft á orði að ríkjandi staða karla þegar efnahagsleg völd eru annars vegar komi í veg fyrir að konur geti notið frelsis og jafnréttis í samfélaginu. Ekki liggja fyrir nægjanlegar rannsóknir á því hvernig efnahagslegir valdaþræðir í samfélaginu eru og hvort þeir liggi fremur í höndum karla. Lagt er til að ríkisstjórnin skipi nefnd sem gerir tillögu að rannsóknarverkefnum um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi.

Í III. kafla framkvæmdaáætlunarinnar eru verkefni sérhvers ráðuneytis fyrir sig tíunduð. Framkvæmdin er á ábyrgð viðkomandi ráðherra. Því var lögð áhersla á að sérhvert ráðuneyti samþykkti eða legði fram sinn eigin verkefnalista. Enda er það í anda samþættingar að ráðuneytin gangi meðvituð til verks og að eigin frumkvæði í jafnréttismálum.

Það er of langt mál, herra forseti, að fara yfir öll verkefnin og gera sérstaklega grein fyrir þeim hér. Þó er rétt að minnast á nokkur þeirra.

Forsrh. hefur ákveðið að beita sér sérstaklega fyrir tveimur verkefnum, þ.e. að gerð verði sérstök úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna. Bent hefur verið á að núv. kjördæmaskipun og kosningalöggjöf sé konum ekki til framdráttar og erlendar rannsóknir og skýrslur sýna að kosningakerfið hefur bein áhrif á möguleika kvenna til að ná kjöri í kosningum. Forsrn. mun að auki fela verkefnisstjórn um málefni upplýsingasamfélagsins það verkefni að fylgjast með og reyna að hafa áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu karla og kvenna. Konur og karlar koma að þessum málaflokki á mjög ólíkan hátt. Karlar eru mun virkari þátttakendur í þróun tækninnar og fjölbreyttri notkun hennar.

Á vegum dómsmrn. eru lögð til níu verkefni. Fjögur þeirra varða fjölda kvenna í störfum á vegum ráðuneytisins, í nefndum, ráðum, stofnunum og í ráðuneytinu sjálfu. Ráðgert er að vinna markvisst að auknum hlut kvenna. Þá hyggst dómsmrn. fylgja eftir vinnu nefndar sem dómsmrh. hefur skipað til að fara ofan í saumana á meðferð heimilisofbeldismála, stöðu þolenda afbrota, stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar og stöðu kynjanna í forsjár- og umgengnismálum. Á vegum dómsmrn. verða einnig skipulögð námskeið fyrir opinbera starfsmenn um mannréttindi, sérstaklega mannréttindi kvenna.

Á vegum félmrn. verður unnið að 20 verkefnum. Átta verkefnanna varða konur á vinnumarkaði enda staða kvenna á vinnumarkaði nokkurt áhyggjuefni. Kynbundinn launamunur, hugsanlega kynbundið atvinnuleysi og fæð kvenna í hópi atvinnurekenda eru með helstu viðfangsefna ráðuneytisins á verkefnalista áætlunarinnar. Þar skal einnig könnuð sérstaða kvenna hvað varðar hlutastörf, sérstaða kvenna í dreifbýli og vandamál aðfluttra kvenna. Samþætting atvinnulífs og fjölskyldulífs eru einnig á meðal verkefna ráðuneytisins. Til stendur að kanna hvernig auka megi virkni kvenna í almennu stjórnmálastarfi. Á vegum ráðuneytisins verða skipulögð námskeið um markmið og leiðir í jafnréttisstarfi fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana sem og aðra stjórnendur sem þess óska.

Fleiri verkefni mætti nefna en tímans vegna ætla ég aðeins að tiltaka eitt af verkefnalista félmrn., verkefni sem lætur lítið yfir sér en kann þó að marka nýja tíma í jafnréttismálum. Ráðgert er að koma á reglubundnu mati á stjfrv. með tilliti til jafnréttis kynjanna. Félmrn. geri jafnréttisumsögn sem fylgi öllum stjórnarfrumvörpum við framlagningu þeirra á Alþingi líkt og fjmrn. gerir nú með kostnaðarmati.

Fjmrh. hefur átta verkefni á sínum verkefnalista sem m.a. varða jafnrétti í starfsmannastefnu ríkisins, feðraorlof og jafnréttisátak í ráðuneytinu. Fjmrn. hefur og með höndum mikilvæga fræðslu um jafnréttismál fyrir yfirmenn stofnana sinna.

Heilbr.- og trmrn. mun vinna að tíu fjölbreyttum verkefnum. Þar má nefna jöfnun á þeim mun sem er á rétti vinnandi fólks til greiðslna í fæðingarorlofi, fræðsla til verðandi feðra og könnun á þætti karlmennskuímyndar í áhættuhegðun karla. Ráðuneytið mun einnig, svo fátt eitt sé talið, í samstarfi við félmrn. beita sér fyrir því að boðið verði upp á meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.

Iðnrn. og viðskrn. hyggst m.a. halda áfram að vinna að fjölbreyttum verkefnum til stuðnings atvinnuuppbyggingu kvenna og öryggi þeirra á vinnumarkaði.

[13:45]

Þá hyggst ráðuneytið leggja sérstaka áherslu á aukinn hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins og könnun á því hvort og þá hvernig samdráttur í einstökum atvinnugreinum hafi komið við konur.

Á vegum landbrn. verður sérstaklega gert átak í að rétta hlut kvenna í bændastétt og skilgreind eru fjögur verkefni í þessu skyni.

Menntmrh. hefur á verkefnalista ráðuneytis síns tólf viðamikil verkefni. Sjö þeirra tengjast beint skólastarfi og þar er m.a. um að ræða jafnréttiskennslu, að jafnréttis sé gætt við gerð námskrár, rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar sem og íþróttauppeldi stúlkna. Þá hyggst menntmrh. skoða sérstaklega menntun stúlkna og þekkingu í stærðfræði og um tölvur og upplýsingatækni. Þá mun menntmrn. beita sér fyrir athugun á aðgengi kvenna að fjölmiðlum og þá um leið þátttöku þeirra í ákvörðunum varðandi þróun þessara miðla.

Samgrn. hefur eitt verkefni á sinni könnu. Fyrirhugað er að kanna framlag kvenna til ferðaþjónustunnar.

Sjútvrh. hyggst skoða sérstaklega stöðu kvenna í fiskvinnslu og í atvinnurekstri í sjávarútvegi en eins og kunnugt er eru fáar konur í hópi útgerðarmanna. Þá mun sérstaða sjómanna og fjölskyldna þeirra einnig verða skoðuð.

Umhvrn. hefur m.a. sett sér að stofna jafnréttisnefnd ráðuneytisins sem fengið verði margþætt verkefni eins og fram kemur í framkvæmdaáætluninni. Á vegum utanrrn. er fyrirhugað að vinna að þremur jafnréttisverkefnum á gildistíma áætlunarinnar, þar á meðal að unnin verði aðgerðaáætlun til að auka hlut kvenna í utanríkisþjónustunni og virkni utanrrn. í málefnum kvenna og barna á alþjóðavettvangi.

Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð eftir tvö ár og mun félmrh. leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Félmrn. mun standa fyrir almennri kynningu á áætluninni og gefa hana út í aðgengilegu formi til almennrar dreifingar.

Herra forseti. Gildistími áætlunarinnar er frá upphafi þessa árs til loka 2002. Hér er um aldamótaáætlun að ræða, tveggja alda sýn, og það er von mín að hún verði til þess að með nýrri öld renni upp nýir tímar í jafnréttismálum, tímar jafnréttis og réttlættis kynja á milli. Að lokinni umræðunni í dag, herra forseti, geri ég tillögu um að þessi þáltill. verði send hv. félmn. til athugunar.