Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 13:54:05 (3577)

1998-02-10 13:54:05# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[13:54]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar skuli komin til umræðu. En jafnframt hlýt ég að minna á að þegar skýrsla var síðast lögð fram á hinu háa Alþingi um framkvæmd þeirrar áætlunar sem er enn í gildi kom í ljós að þeirri áætlun hafði verið fylgt afskaplega slælega eftir. Í ráðuneytunum var mjög víða pottur brotinn og því hlýtur sú grundvallarspurning að vakna hvernig hægt verður að fylgja áætluninni betur eftir til þess að þau orð hæstv. félmrh. megi rætast að við höldum inn í nýja öld í samfélagi sem býður körlum og konum upp á mun jafnari kjör og jafnari stöðu en við þekkjum nú. Við hljótum að spyrja okkur hvernig hægt verður að auka áhrif félmrn. og jafnframt að tryggja að önnur ráðuneyti standi við það sem þau hafa heitið í áætluninni.

Áður en ég kem að einstökum þáttum áætlunarinnar vekur það líka athygli, hæstv. forseti, hve hlutur ráðuneytanna er misjafn. Þar sker félmrn. sig úr hvað varðar mörg og ítarleg og merkileg verkefni en neðst á blaði er hv. samgrn. sem finnst jafnréttismál koma sér greinilega lítið við og sér ekkert sér viðkomandi annað en ef vera mætti konur í ferðaþjónustu. Þarna held ég að viðhorfin komi fram í hnotskurn, að menn átta sig ekki á því út á hvað málin ganga. Hér þarf og þyrfti hvert einasta ráðuneyti að byrja á sjálfu sér, skoða hvernig málum er háttað innan dyra, beina síðan sjónum að þeim nefndum og ráðum sem starfa á vegum ráðuneytanna og stofnunum sem undir þau heyra. Hverjum hv. þm. er kunnugt að margar stofnanir heyra undir samgrn. og það hlýtur að þurfa að kanna stöðu jafnréttismála þar eins og annars staðar. Það stingur í augu þegar áætlunin er lesin yfir að það er afar misjafnt hvort ráðuneytin ætla sér sjálf að gera einhverja skoðun innan dyra, hvort þau ætla að taka á því hvernig skipað er í ráð og nefndir og hvort þau ætla að skoða þær stofnanir og semja jafnréttisáætlanir yfir þær stofnanir sem heyra undir þau. Mér fyndist sanngjarnt og eðlilegt að samræmi væri í þessu í gegnum alla áætlunina, að ráðuneytunum verði gert að vinna að jafnréttisáætlun og að skoða stöðu jafnréttismála innan sinna dyra og að það verði líka samræmi hvað varðar nefndir og ráð hjá öllum ráðuneytunum því að þau þurfa öll að taka á þessum málum.

Í áætluninni er að finna mörg mjög athyglisverð og góð verkefni og þar er ekki síst að nefna að ríkisstjórnin ætlar að taka sér tak hvað varðar alla tölfræði. Ég held að það sé afar mikilvægt en vil þó nefna að Hagstofa Íslands hefur staðið sig ákaflega vel í þeim efnum og gefið út ljómandi góðan bækling um konur og karla, sem hefur að geyma mjög margvíslegar og mikilvægar upplýsingar um stöðu karla og kvenna.

Ríkisstjórnin ætlar að skoða sérstaklega konur og efnahagsmál. Ég held að það sé afar brýnt að skoða efnahagslega stöðu kvenna, skoða völd þeirra í efnahagskerfinu, en í því sambandi minni ég á að hluti hagkerfisins er ósýnilegur, þ.e. hin ólaunuðu störf sem á ensku er kallað ,,home economics`` og hefur víða verið lögð mikil áhersla á að draga öll þau miklu störf inn í þjóðhagsstærðir.

Ég nefni að forsrn. ætlar að beita sér sérstaklega fyrir skoðun á kjördæmaskipaninni út frá möguleikum kvenna. Eins og fram kemur eru til miklar, erlendar rannsóknir á kosningakerfum og því hvernig þau reynast. Allt er þetta mjög af hinu góða.

Ég hef ekki tíma til að stikla á öllu því sem væri gaman að velta fyrir sér en mig langar til að nefna viðkvæma spurningu hvað varðar dómsmrn. og snýr að forsjár- og umgengismálum og skilnuðum. Því hefur stundum verið varpað fram hvort hjónaskilnaðir séu of auðveldir á Íslandi. Er hugsanlegt að það hvað þeir eru auðveldir skapi ákveðið kæruleysi? (Gripið fram í: Þunglyndi.)

[14:00]

Ég vil upplýsa hv. þm. um það, af því að hann kallar hér fram í, að þunglyndi er helmingi algengara meðal kvenna en karla. Um 20% íslenskra kvenna finna fyrir verulegu þunglyndi einhvern tíma á ævi sinni meðan hlutfall karla er 10%. Þetta er mjög alvarlegt mál, hv. þm. Reyndar er ekki komið inn á það í kaflanum um heilbrigðismál en þar eru ýmsar athyglisverðar tillögur að finna og m.a. er tekið undir tillögu sem ég lagði fram fyrir nokkrum dögum um sérstakt átak gegn reykingum kvenna. Þá tillögu er að finna í þessu, ég hafði ekki áttað mig á því. En það sem snýr að hjónabandinu og breytingum á samsetningu fjölskyldna er eitt af því sem Evrópusambandið hefur sett í forgang í félagsmálastefnu sinni að kanna hvað þarna býr að baki. Í löggjöf Norðurlandanna, m.a. í Noregi, hafa menn verið að setja aukin skilyrði til að brýna fyrir fólki ábyrgð þess sem foreldra. Meðal annars er foreldrum í Noregi sem hyggja á skilnað gert skylt lögum samkvæmt að leita sér ráðgjafar. Það eru ýmsar spurningar sem vakna í tengslum við þetta.

Mér líst afar vel á verkefni félmrn. og vona svo sannarlega að þau komist sem flest í framkvæmd. Það er greinilegt að gera á allmargar rannsóknir og ég fagna því sérstaklega því að okkur skortir mjög rannsóknir á stöðu kvenna.

Í sambandi við félmrn. vil ég sérstaklega benda á að hér er ekkert komið inn á fatlaðar konur. Ég held að það væri mikil ástæða til að kanna stöðu fatlaðra kvenna sérstaklega.

Tíma mínum er alveg að ljúka. Að lokum vil ég ítreka að ég held að hér þurfi að vinna svolitla vinnu í að samræma þessar áætlanir ráðuneytanna og tel að það beri að gera þeim skylt að fara að jafnréttislögum að sjálfsögðu og að þau setji inn í verkefnaáætlanir sínar þau atriði þar sem verulega þarf að taka á.