Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:14:13 (3583)

1998-02-10 14:14:13# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:14]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram í upphafi að langflestir Íslendingar séu svo réttsýnir að telja jafnrétti kynjanna sjálfsagt eða a.m.k. æskilegt. Þó skal ekki svarið fyrir það að allnokkrir hugsi eins og karlinn sem sagði: Jafnrétti er svo sem allt í lagi bara að það gangi ekki of langt.

Einhvern veginn er það svo að hvert einasta skref í átt til jafnrar stöðu og jafnra réttinda kynjanna hefur kostað baráttu, stundum alveg ótrúlega harða baráttu. Sú barátta hefur verið nánast öll á aðra hlið. Það eru konur sem hafa unnið með öllum ráðum og gerðum að jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna. Hvers vegna skyldi það nú vera? Auðvitað vegna þess að það hefur hallað á konur og það hallar enn á konur. Öll þessi barátta hefur skilað árangri og raunar mjög miklum árangri en samt er enn furðulangt í land.

[14:15]

Á lagalega sviðinu stöndum við bærilega í samanburði við aðrar þjóðir. Kveðið er á um jafnan rétt kynjanna í stjórnarskrá og í 22 ár höfum við haft sérstök lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í þeim er kveðið á um fjölmörg atriði sem eiga að jafna stöðuna á vinnumarkaði, í skólum og hvarvetna í samfélaginu. Þar er meðal annars kveðið á um hvernig tryggja skuli sem mest jafnræði kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þannig mætti áfram telja og ætla mætti að hér væri allt í sóma og blóma á þessu sviði. En er það svo í raun? Slíkri spurningu er erfitt að svara játandi. Hún snertir okkur auðvitað með mismunandi hætti og til eru þeir sem halda því blákalt fram að konur og karlar hafi sömu möguleika á öllum sviðum.

Meinið er auðvitað að lög og reglur eru eitt og framkvæmd þeirra allt annað mál eins og nýlegir dómar sanna. Fyrst og fremst skortir eftirfylgni við þessi lög og þær yfirlýsingar og fyrirheit sem gefin hafa verið. Það er t.d. athyglisvert að bera saman tvær stofnanir í íslensku þjóðfélagi sem eiga að sjá um eftirlit og fylgja eftir framkvæmd laga. Þar á ég við skrifstofu jafnréttismála annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar.

Til að sinna verkefnum Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála sem og öðrum verkefnum sem ráðherra kann að ákveða, starfar skrifstofa jafnréttismála. Þar hafa undanfarin ár verið fimm til fimm og hálft stöðugildi og skrifstofan hefur um 27 millj. kr. til rekstursins í ár. Með þessu fjármagni og fámennu starfsliði verða auðvitað engin stórvirki unnin, hversu mikill sem viljinn er þar innan veggja.

Til samanburðar höfum við Samkeppnisstofnun sem hefur það hlutverk að framfylgja samkeppnislögum. Þar starfa yfir 20 manns og fjárveiting til stofnunarinnar nemur rétt tæpum 89 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Þessi mikli aðstöðumunur segir auðvitað sitt um áherslur og raunverulegan vilja stjórnvalda.

Hér er til umfjöllunar eitt af þeim tækjum sem ráðamenn hafa til að vinna að þessu göfuga markmiði, þ.e. framkvæmdaáætlun til næstu fjögurra ára eða allt til loka ársins 2001, aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Leiðarljósið er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Hér hefur ríkisstjórn Íslands lagt fram á þingskjali fyrirbrigðið samþættingu sem af mörgum er talin vænlegri leið en að afgreiða jafnréttismálin sér eins og reyndar er títt. Ég vil nú leyfa mér að segja að í raun sé stefna Kvennalistans komin á þingskjal frá ríkisstjórninni því þetta hefur alla tíð verið okkar stefna, að jafnréttismálin fléttist inn í aðra þætti samfélagsins.

Spurningin er þó hvort um eitthvað annað sé að ræða í þessari framkvæmdaáætlun sem talist geti til nýmæla. Ég verð að segja eins og er: Mér finnst það. Mér finnst ýmislegt gott í þessari framkvæmdaáætlun.

Stærsta spurningin er auðvitað hvaða árangri slíkar áætlanir hafi skilað. Hvað og hversu mikið hefur verið framkvæmt af öllum þeim ágætu áformum sem tíunduð hafa verið, t.d. í síðustu framkvæmdaáætlun. Um það ræddi hæstv. félmrh. ekki svo ég heyrði, en honum er reyndar vorkunn miðað við þau tímamörk sem gilda í þessari umræðu. Verkin tala ekki háum rómi. Ráðherrar hafa t.d. verið staðnir að því að brjóta jafnréttislög og sniðganga framkvæmdaáætlun þar sem auðveldast ætti að vera að bæta ástandið. Ráðherrar hafa ekki tryggt jafna möguleika kynjanna til áhrifa með þátttöku í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Vegna orða hv. 16. þm. Reykv. held ég að hann hljóti að sjá að miklu máli skiptir að kynin hafi svipuð áhrif í stjórnum, nefndum og ráðum.

Hæstv. forsrh. viðurkenndi, að því er virtist blygðunarlaust í umræðum hér á Alþingi, að hafa brotið gegn ákvæði laga um að minna tilnefningaraðila á 12. gr. jafnréttislaga. Sú grein er þess efnis að tilnefna beri bæði karl og konu. Það vekur athygli að forsrn. sem ber ábyrgð á framkvæmd verkefna ríkisstjórnarinnar skuli ekki nefna þetta í sínum kafla í áætlunarinnar.

Ég vil þó fyrir alla muni vera jákvæð og trúa því að hægt og bítandi fari ástandið batnandi. Það hefur gert það og þó að við vildum gjarnan sjá stærri stökk ber að fagna því sem vel er gert. Í þessari áætlun eru fjölmargir góðir punktar. Þeir eru þó um of orðaðir á þann veg að stefnt skuli að hinu og þessu en lítið fast í hendi um hvernig gera skuli.

Fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst með lið 2.7. á bls. 4, þar sem dóms- og kirkjumrh. ætlar sér að beina þeim tilmælum til biskupsstofu að sérstaklega verði hugað að stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar. Stefnt skal að aukinni þátttöku kvenna í ráðum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og jafna hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum innan hennar. Þarna er um að ræða einhverja íhaldssömustu stofnun þjóðfélagsins og víst að konur eru afar ósáttar með sinn hlut innan hennar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Ég fagna auðvitað sérstaklega fyrsta áhersluatriðinu undir lið 3.1. sem félmrn. ber ábyrgð á. Þar kemur fram að félmrh. muni á gildistíma áætlunarinnar sjá til þess að komið verði á reglubundnu mati á frv. með tilliti til jafnréttis kynjanna. Jafnréttisumsókn verði látin fylgja stjórnarfrv. við framlagningu þeirra á Alþingi. Þarna er á ferðinni nákvæmlega sama hugmynd og útfærð er í frv. til laga sem nú liggur fyrir Alþingi og var mælt fyrir því í byrjun nóvember. Frv. þetta var um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis með það fyrir augum að mat á stöðu kynjanna á viðkomandi sviði skuli fylgja áliti þegar afgreidd eru lög eða ályktanir frá nefnd. Því miður hef ég ekki tækifæri til að fjalla frekar um þetta að þessu sinni.