Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:22:58 (3584)

1998-02-10 14:22:58# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að það sem mér finnst vanta í umfjöllun okkar um þessa tillögu til þingsályktunar, samantekt á því hvaða árangri síðasta framkvæmdaáætlun, sem var stofnað til árið 1993, hefur skilað. Ég held að þegar við fjöllum um nýja framkvæmdaáætlun sé nauðsynlegt að við áttum okkur á því hvaða árangri sú síðasta hefur skilað. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni afla þeirra upplýsinga og láta taka saman hver árangurinn hefur orðið af síðustu framkvæmdaáætlun. Þannig gæti nefndin sem fær málið til umfjöllunar haft það til hliðsjónar í sínu starfi. Í tillögu þeirri sem hér er til umræðu rekst ég á ýmis atriði úr gömlu framkvæmdaáætluninni sem segir mér að lítið hafi verið gert í málunum. Nefndin verður auðvitað að átta sig á þeirri stöðu.

Árið 1993 óskaði ég eftir því við Jafnréttisráð að það fylgdi framkvæmdaáætluninni eftir og fylgdist með framgangi hinna ýmsu markmiða hennar. Ég á því von á að þetta gæti legið fyrir og spyr ráðherrann sérstaklega að því.

Enginn vafi leikur á, herra forseti, að það er góður hugur sem fylgir máli hjá hæstv. ráðherra þegar hann fylgir þessari framkvæmdaáætlun úr hlaði. Hann hefur að mörgu leyti viðhaft góð vinnubrögð og lagt sig fram um að kynna málið mörgum aðilum og leita samráðs um efnið. Markmiðin sem sett eru fram í innganginum eru vissulega mjög háleit og göfug. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að konur og karlar skuli njóta jafnra tækifæra og hafa sömu möguleika til áhrifa í samfélaginu.``

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að eitt af meginmarkmiðum hennar sé að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis.

Í tillögunni segir síðan: ,,Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar tímabilið 1998 til loka árs 2001 um aðgerðir til að koma á jafnrétti kvenna og karla er lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna er mannréttindamál. Íslenskum stjórnvöldum ber, á grundvelli laga, sem og vegna alþjóðlegra sáttmála sem þau hafa staðfest, að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum til að auka jafnrétti kynjanna.`` En síðan kemur hér og ég velti því fyrir mér hvað þetta þýðir, á bls. 2: ,,Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem verður falið að kanna hvort`` --- ég vek athygli á þessu orði, hvort --- ,,og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna.`` Það á að athuga hvort opinber stefnumótun eigi að taka mið af jafnrétti kynjanna. Þetta þarf auðvitað að skoða.

Þegar maður fer yfir einstaka kafla tillögunnar, veltir maður fyrir sér hvort hugur fylgi máli, ekki síst þegar maður lítur á kostnaðarumsögn fjmrn. við tillögurnar. Hvað það kostar það ríkissjóð á þessum fjórum árum að framfylgja jafnréttislöggjöfinni og koma á meira jafnrétti kynjanna? Jú, herra forseti. Á næstu fjórum árum kostar framkvæmd þessara tillagna 7--10 millj. kr. 7--10 millj. á að láta í jafnréttismálin úr ríkissjóði á næstu fjórum árum. Það segir mér nú, herra forseti, að hér fylgi ekki mikill hugur máli um framkvæmdina á öllu þessu.

Auðvitað er misjafnt milli ráðuneyta, hvað þau ætla að gera á þessu fjögurra ára tímabili. Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að gegnumgangandi í þessari ályktun, sem og fyrri áætlunum eru tölfræðiathuganir. Þær koma aftur og aftur og þó þær séu af hinu góða viljum við fara að sjá framkvæmdir í jafnréttismálum.

Svo ég vitni nú í Vísbendingu frá árinu 1996, þá eru það konur sem halda að miklu leyti uppi lífskjörum hér á landi. Þar kemur fram að atvinnuþátttaka kvenna er langmest hér á landi þegar OECD-löndin eru borin saman. Þar kemur einnig fram að þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna heldur landsframleiðslu þjóðarinnar uppi, svo verulega að á árinu 1994 var Ísland í sjöunda efsta sæti þegar skoðuð er landsframleiðsla á hvern íbúa. Ef atvinnuþátttaka hér á landi væri að meðaltali hin sama og gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum þá dytti Ísland niður í 20. sæti. Konur halda því að verulegu leyti uppi lífskjörum þjóðarinnar og þurfa síðan að búa við að fylla láglaunahópana og sætta sig við verulegan launamismun í starfs- og launakjörum í sambærilegum störfum og karlar.

Ég sakna þess, herra forseti, að ekki skuli vera getið um jafnréttisáætlanir hjá ráðuneytum og stofnunum. Í minni tíð sem félmrh. var í ríkisstjórninni samþykkt að árunum 1989--1992 skyldi hver opinber stofnun og ráðuneyti gera jafnréttisáætlanir. Ég tel að þær hafi skilað nokkrum árangri. Auðvitað þarf að meta það. Ég spyr ráðherrann hvort því hafi verið fylgt eftir í ráðuneytinu að gera þessar jafnréttisáætlanir. Svar sem ég fékk frá viðskrh. um stöðu kvenna í bankakerfinu segir mér að þetta sé nauðsynlegt. Þar fékk ég svar varðandi þrjá banka: Seðlabankann, Búnaðarbankann og Landsbankann. Þar kemur fram að mjög hallar á konur í yfirmannsstöðum innan bankakerfisins. Sérstaklega í Seðlabanka og Landsbanka og að kerfi fastra bílastyrkja er notað til að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum, ekki síst innan Landsbankans og Búnaðarbankans. Seðlabankinn hefur einn þessara banka gert jafnréttisáætlun, gerði hana 1996, og það skilar sér þegar vegna þess að þótt að þeir standi sig slaklega í að fjölga konum í ábyrgðarstöðum þá standa þeir sig betur en hinir við að jafna launakjörin.

Í svari ráðherra kemur fram, með leyfi forseta, að bílastyrkir sem raunverulega eru aðeins uppbót á launin geti gert það að verkum að nærri helmingi muni greiðslum til kvenna og karla þótt um sambærilegar stöður sé að ræða. Þannig kemur fram að Landsbankinn greiddi fasta bílastyrki til æðstu yfirmanna. Það voru að meðaltali um 610 þús. kr. á ári til karlmanns en um 320 þús. kr. til konu í sambærilegri stöðu. Konur í ábyrgðarstöðum fá aðeins 50% af bílastyrk karla í sambærilegum stöðum. Eins er athyglisvert að þó meiri hluti skrifstofustjóra í Búnaðarbankanum séu konur þá er fastur bílastyrkur þeirra einungis um 60% af föstum bílastyrk karla í stöðu skrifstofustjóra. Þarna eru borin saman sambærileg störf í sömu stofnun og það leiðir í ljós helmings mun á hinum föstu bílastyrkjum.

[14:30]

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að fylgja þurfi eftir þessum jafnréttisáætlunum innan stofnana og gera þær að föstum lið í þeirri framkvæmdaáætlun sem við erum að ræða. Ég er alveg sannfærð um að það skilar árangri. Það er auðvitað kafli út af fyrir sig hvað konur fylla lítið þann hóp sem gegna ábyrgðarstöðum innan bankanna og nefni ég aðeins eitt dæmi. Af 70 af æðstu yfirmönnum í Landsbanka Íslands eru aðeins níu konur eða um 13%. Þess vegna vil ég spyrja sérstaklega um jafnréttisáætlanirnar.

Að lokum vil ég nefna það sem veldur mér verulegum vonbrigðum, vegna þess að þegar við erum að tala um jafnréttismál og framkvæmdaáætlanir, þá skiptir mestu máli staðan í atvinnumálum kvenna, sem ég mun ræða sérstaklega við ráðherra á morgun í fyrirspurnatíma, staðan í launamálum sem er mjög slök, hvernig opinberri fjölskyldustefnu er framfylgt og hvernig við framfylgjum því stóra jafnréttismáli sem er fæðingarorlof. Mér sýnist í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir, samanborið við fyrri áætlun, að við séum að ganga skref til baka vegna þess að í fyrri framkvæmdaáætlun áttu á gildistíma áætlunarinnar að vera lögfestar reglur sem tryggja áttu sambærilegan rétt til kvenna og karla, hvort sem það var á opinberum markaði eða á almennum markaði. Það er ekki gert í þessari áætlun. Þó að margt sé gott í henni að finna þá eru líka dæmi um að við séum að ganga skref til baka.