Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:31:39 (3585)

1998-02-10 14:31:39# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:31]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög mikilvægt mál á ferðinni. Þetta er mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðuna og ýmis nýmæli eru í þessari þáltill. Það er hins vegar af mörgu að taka og ekki hægt að komast yfir allt það efni í stuttri ræðu en ég ætla að stikla hér á stóru.

Mig langar að byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem komu fram áðan, m.a. í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um ofurkonuna. Greinar hafa einmitt birst síðastliðna daga um ofurkonuna. Þessar greinar hafa verið í Morgunblaðinu. Ég hef farið víða og er oft að ræða við kvennahópa, talsvert stóra hópa. Ég var fyrir stuttu að ræða við 80 ungar konur í Viðskipta- og tölvuskólanum, og hitti við og við allstóra kvennahópa. Mér finnst alls staðar þar sem ég kem núna konur vera einmitt að ræða um ofurkonuna og þessar greinar í Morgunblaðinu. Umræðan snýst nákvæmlega um ofurkonuna, um það atriði í augnablikinu. Konurnar staldra við. Þær líta í eigin barm og mér finnst þetta hafa vakið þær aftur til umhugsunar um stöðu sína eftir þá lægð sem umræðan hefur verið í að mínu mati.

Þessar konur taka ábyrgð á sínu heimili. Við vitum að konur sjá að mestu leyti um sín heimili enn þá. Að vísu hefur vinnuframlag karla aukist og það er gott. Konur eru líka þátttakendur úti á vinnumarkaðnum. Ætli þátttaka þeirra á vinnumarkaði sé ekki um 80%. Þær eru að sjálfsögðu í ýmsu félagslífi, í íþróttum og öðru slíku þannig að fáar hvíldarstundir gefast.

Þegar ég hlusta á þessar konur verð ég æ sannfærðari um að þær kynslóðir sem nú lifa, þær konur sem eru nú á lífi eru fyrstu og síðustu kynslóðirnar sem munu sætta sig við þetta álag. Ég held að konur í framtíðinni muni ekki sætta sig við það umhverfi sem við lifum í núna, þ.e. að taka ábyrgð bæði á heimili að mestu leyti og að vera úti á vinnumarkaðnum. Framtíðarkonan mun ekki sætta sig við þetta. Það má svo sem segja að að sjálfsögðu er þetta val okkar kvennanna. Við höfum sjálfar komið okkur í þær aðstæður að einhverju leyti.

En mér finnst krafturinn í jafnréttisbaráttunni hafa dvínað. Það var mikill kraftur í henni fyrir nokkrum árum, en ég hef á tilfinningunni að það hafi færst ákveðinn doði yfir þá baráttu. Það er eins og ekki sé í tísku að ræða um jafnréttismál og það er alvarlegt. Það er hugsanlega vegna þess að þeir sem stýra umræðunni um jafnréttismál eða hafa gert það hingað til, eru m.a. konur, konur í stjórnmálum, konur sem eru leiðandi í atvinnulífinu, og það er eins og þær beiti sér ekki nægjanlega í jafnréttismálunum. Það er eins og ekki sé í tísku að tala um þessi mál. Það er hugsanlega vegna þess að skilaboðin, sem þessar konur fá þegar þær taka sterkt til orða í jafnréttismálunum, eru frekar slæm. Það er gert grín að umræðunni. Maður er ekki tekinn hátíðlega og umræðunni er snúið gegn konunum. Mér finnst því eins og konur hafi dálítið gefist upp við að taka sjálfar á jafnréttismálunum og það er afar alvarlegt að mínu mati.

En varðandi þessa þáltill. þá finnst mér afar jákvætt að sjá hástemmdar yfirlýsingar um að jafnréttismálin séu mál karla og kvenna og að nauðsynlegt sé að kynin vinni saman til að ná meiri árangri. Það minnir mig á nýlega heimsókn nokkurra þingmanna hingað til okkar frá Kúveit þar sem þeir voru einmitt spurðir að því af hverju konur hefðu ekki kosningarrétt í Kúveit. Og svarið var: ,,Svona er lýðræðið.`` Þetta mál kom fyrir þingið þar en var fellt með meiri hluta atkvæða. En það er svo sannarlega rétt að hér er mál sem skiptir konur og karla verulegu máli og kynin eiga að vinna saman að því.

Mér finnst jákvætt að sjá að öll tölfræði á að verða kyngreind í framtíðinni. Það er algjör undirstaða umræðunnar að vita nákvæmlega hvernig staðan er þannig að málflutningurinn verði ekki á einhverjum tilfinninganótum eða byggður á mati, heldur á algjörlega óyggjandi upplýsingum. Það er mikið vopn í þeirri baráttu að hafa óyggjandi upplýsingar. Það hef ég séð sérstaklega t.d. í Framsfl. þar sem við gerðum ítarlega úttekt á stöðu kvenna í stjórnmálum í okkar flokki og þær tölur sýna svart á hvítu hvernig staðan er, en hún er ekki nógu góð enn þá.

Mér finnst líka mjög gott varðandi 2. lið II. kafla, að kanna eigi hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Það er alveg ljóst varðandi opinbera stefnumótun að ég tel að hún verði ekki mjög markviss í anda jafnréttis fyrr en konur hafa náð hærra hlutfalli í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda. Nú er það hlutfall um 23% eða svo og þar þarf að gera mikla bragarbót á.

Það er líka mjög ánægjulegt að sjá að taka eigi á kjördæmaskipuninni og gera úttekt á hvernig kjördæmaskipun hefur áhrif á stöðu kvenna í stjórnmálum. En það vita held ég allir sem hafa skoðað þau mál að eftir því sem kjördæmi stækka og eru fjölmennari eða fleiri þingmenn komast inn af listum í viðkomandi kjördæmi, þeim mun líklegra er að konur komist að. Þannig að segja má að ef landið væri eitt kjördæmi, þá er nokkuð líklegt að fleiri konur væru á Alþingi. (KHG: En ef það væri einn flokkur?)

Varðandi fræðslu um jafnréttismál er mjög ánægjulegt að sjá að skipuleggja á námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og það veitir svo sannarlega ekki af. (Gripið fram í: En ráðherra?) Ég held að yfirmenn bæði í ráðuneytum og ríkisstofnunum, og jafnvel ráðherrar, séu nokkuð óupplýstir um stöðuna. Það má vera að það sé hugsanlega okkar baráttuaðferðum að kenna hingað til að þessi málaflokkur, jafnréttismál, hefur að verulegu leyti verið í umræðu á milli kvenna.

Einnig á að gera átak í að auka virkni kvenna í stjórnmálum og þar má lyfta miklu grettistaki að mínu mati. Á Norðurlöndunum hefur ríkisvaldið kostað til talsverðum fjármunum til að fara í þverpólitískar aðgerðir til að auka hlut kvenna. Hér höfum við ekki gert það. Jafnréttisráð hefur reyndar staðið fyrir herferð í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, herferð sem heitir: ,,Sterkari saman.`` En það var ekki mikið fé lagt í hana og ég held að það þurfi að gera stóraukið átak til þess að við tökum eins vel á málum og gert er á Norðurlöndunum.

Ég hef ekki meiri tíma að sinni en hugsanlegt er að ég komi upp og reyni að klára mína ræðu á eftir.