Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:42:30 (3588)

1998-02-10 14:42:30# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að málið hljóti að ganga þannig miðað við röksemdir þingmannsins að þá fyrst færi hlutur kvenna að aukast ef stjórnmálaflokkarnir hefðu hver um sig fleiri en eitt þingsæti í hverju kjördæmi. Það halli á konur vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki í mörgum kjördæmum svo mörgum þingsætum á að skipa að hlutföllin verði jöfnuð. Þar með hlýtur fækkun stjórnmálaflokkanna að leiða til þess að hver og einn hafi tvö eða fleiri þingsæti í hverju kjördæmi og þar af leiðandi að stuðla að auknu jafnrétti á þessu sviði. Og í því var fólgin mín ábending varðandi röksemdafærslu þingmannsins sem taldi að færri kjördæmi leiddu af sér það sama. Ég bendi því á að með sömu rökum hljóta færri stjórnmálaflokkar að leiða af sér aukið jafnrétti.

Hitt er svo annað mál að þó að þetta sé rétt ályktun út frá gefinni forsendu, þá er veruleikinn ekki svona. Við höfum stóra stjórnmálaflokka, sérstaklega Sjálfstfl. sem hefur frá tveimur og upp í átta þingmenn í kjördæmi, og reyndar Framsfl. sem hefur tvo þingmenn í öllum kjördæmum nema einu. Varðandi báða þessa stjórnmálaflokka, þá gerist það ekki að þeir skili meira jafnrétti á þessu sviði en minni flokkarnir. Það er dálítið athyglisvert.