Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:46:45 (3590)

1998-02-10 14:46:45# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:46]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu að það mál sem hér er á dagskrá er ákaflega þýðingarmikið og gefur tilefni til langrar umfjöllunar því að í eðli sínu tekur það á mjög mörgum þáttum. Við þurfum ekki annað en lesa í gegnum tillgr. sjálfa til þess að átta okkur á því að þar er verið að fara mjög vítt um þjóðmálasviðið í heild sinni. Það er komið inn á verkefni sem lúta að öllum ráðuneytunum og taka til mjög margra þátta í okkar þjóðfélagi þannig að í raun stendur kannski það upp úr þessari umræðu að jafnréttisumræðan hafi e.t.v. á köflum verið óþarflega hólfaskipt. Menn hafa talað um jafnréttismálin, eða jafnréttismálið nánast í eintölu, án þess að gera sér kannski grein fyrir því að auðvitað snerta jafnréttismálin alla málaflokka og að ákvarðanir í einum málaflokki geta haft áhrif á annan einmitt á þessu sviði.

Ég hef setið í félmn. Alþingis síðan 1991 og haft tækifæri til þess að fara yfir jafnréttisáætlanir af þessu taginu, bæði í nefndarstarfinu og eins við seinni umræðu málsins í þinginu og sú spurning sem er hvað áleitnust í upphafi er einfaldlega þessi: Er eitthvert gagn að þessu? Skiptir þetta einhverju máli? Það er út af fyrir sig alveg rétt sem hér hefur komið fram að sumt af því sem stendur í þessu plaggi eins og fyrri plöggum er ákaflega almenns eðlis og þegar farið er að kafa ofan í þetta og fjalla skipulega um þetta í þingnefndinni, þá kemur fljótlega á daginn að sumt af þessu er svo almenns eðlis að varla er hönd á því festandi. Eitt af því sem ég velti mjög fyrir mér við síðustu afgreiðslu, og ég hygg að það hafi valdið því að ég hafi skrifað undir þá nefndarafgreiðslu með fyrirvara ef ég man rétt, var einmitt nákvæmlega þetta, hvort það væri gagn að þessu og hvort hið almenna orðalag gæfi ekki allt of mikið svigrúm fyrir framkvæmdarvaldið til þess að vinna úr. Auðvitað er þetta efni á margan hátt dálítið erfitt viðfangs og þess vegna er eðlilegt að maður velti þessari spurningu fyrir sér.

Ef ég hins vegar ber saman annars vegar þá tillögu sem við höfum í höndunum og ræðum hér í dag og hins vegar þá jafnréttisáætlun sem er til að mynda í gildi núna, þá sýnist mér við fljótlegan samanburð að ráðuneytin hafi náð miklu betri tökum á viðfangsefni sínu. Ég sé ekki betur, ef ég ber þetta saman, en ýmsar þær tillögur sem hér eru séu fastari í hendi þó að vissulega, eins og ég hef áður sagt, séu þarna líka atriði sem eru ákaflega almenns eðlis og erfitt út af fyrir sig að túlka eða ræða um.

Það sem ég held að sé kannski eitt stærsta atriðið varðandi þessa tillögu er að þetta gefur okkur tilefni til að ræða þetta mál, þ.e. jafnréttismálin, sem við ella mundum ekki ræða. Þetta er málaflokkur sem gengur þvert í gegnum þjóðmálaumræðuna og er kannski ekki alltaf færi á að ræða skipulega eins og þó er tækifæri hérna. Því held ég að umræða af þessu taginu eigi sinn þátt í því að valda þeirri hugarfarsbreytingu sem auðvitað er nauðsynleg í þessari jafnréttisumræðu, samanber þá umræðu sem hér hefur farið fram um ofurkonurnar sem eru afsprengi nútímasamfélagsins þar sem konan vinnur úti og axlar líka mjög stóran hluta af heimilisskyldunum eins og við þekkjum svo víða.

Það væri ástæða til að fjalla sérstaklega um ýmislegt í þessari þáltill. Ég held að það sem skiptir miklu máli í þessu sé það sem segir á bls. 2 undir fyrirsögninni ,,Öll stefnumótun taki mið af jafnrétti kynja``, sem sagt að ríkisstjórnin heitir því að jafnréttissjónarmið verði jafnan samþætt allri opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Þetta eru gríðarlega stór orð og það verður að koma á daginn hvernig mönnum gengur að fylgja þessu eftir. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að tala um áðan og vara við þegar ég talaði um hólfaskiptinguna. Hér er hins vegar verið að reyna að nálgast málið öðruvísi, ekki að horfa á þetta út frá einhverjum hólfum heldur fremur að það eigi að vera rauður þráður almennt í allri löggjöf að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem liggja hér til grundvallar.

Síðan er atriði sem ég held að skipti mjög miklu máli og er í raun og veru hliðstætt og var ákveðið þegar Alþingi samþykkti fjölskyldustefnu sína og það er að á gildistíma þessarar framkvæmdaáætlunar eigi að fara fram reglulegt mat á stjórnarfrumvörpum með hliðsjón af jafnrétti kynjanna. Þetta held ég að skipti líka gríðarlega miklu máli og er, eins og ég sagði áðan, nákvæmlega sama hugsun og lá til grundvallar þessari ákvörðun varðandi fjölskyldustefnuna.

Ég vildi vekja hér máls á einu atriði sem mér finnst vera mjög athyglisvert en vekur með mér margar spurningar. Þannig er að við vitum, virðulegi forseti, að sérstök nefnd starfar nú á vegum forsrh. við endurskoðun á kosningalögum og kjördæmaskipun. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvað út úr þessu nefndarstarfi kemur, sérstaklega í ljósi þess sem segir á bls. 3 um þær fyrirætlanir sem ríkisstjórnin ætlar sér varðandi þetta nefndarstarf, en það er að í skýrslu þessarar nefndar, þegar hún leggur fram tillögur sínar eða hugmyndir að breyttri kjördæmaskipan og kosningalögum, eigi að fara fram sérstök úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna.

Virðulegi forseti. Þetta segir mér bara eitt: Næstu vikur eða mánuði verða ekki neinar hugmyndir á dagskrá um að breyta kosningalögum og kjördæmaskipan sem hefur í för með sér aðra eins grundvallarvinnu og hér á eftir að fara fram. Mér er ekki kunnugt um það, virðulegi forseti, að slík úttekt hafi farið skipulega fram frá íslenskum sjónarhóli. Ég veit að víða erlendis eru til einhverjar slíkar athuganir en auðvitað getur ekki íslensk nefnd sem er að skoða kjördæmaskipan í landinu látið sér nægja að þýða einhverjar slíkar hugmyndir úr útlendum málum og gera það að grundvelli að sinni tillögugerð fyrir íslenskar aðstæður. Ég verð því að segja það, virðulegi forseti, að þeta er mjög mikilvæg ábending sem ég mun fylgjast mjög rækilega með hvernig vindur fram og hlakka mjög til að ræða þessi mál þegar að því kemur. (Gripið fram í: Meinarðu þetta?) Já, mjög einlæglega, virðulegi forseti og hv. þm.

Síðan er það atriði, virðulegi forseti, sem ég hefði gjarnan viljað að hæstv. félmrh. heyrði --- en ég sé að tími minn er á þrotum --- og það er að áætlun sú sem núna er í gildi gerir ráð fyrir því að sérstök athugun fari fram á orsökum brottflutnings kvenna úr dreifbýli í þéttbýli. Nú hefur Byggðastofnun látið fara fram sérstaka athugun á þessum sviðum og þar kemur mjög margt fróðlegt fram, m.a. það að meginorsök búseturöskunarinnar í landinu er skortur á fjölbreytni atvinnulífsins. Jafnframt er gert ráð fyrir því í núgildandi áætlun að sérstakt átak verði gert í því að auðvelda fólki í dreifbýli aðgang að störfum í þéttbýli með fjarvinnslu og með því að nýta nútímatækni. (Forseti hringir.) Því miður hefur gengið ákaflega illa að hrinda þessu í framkvæmd og þess vegna hefði ég gjarnan viljað, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. ræddi í svarræðu sinni sérstaklega um þennan þátt málsins sem ég held að skipti mjög miklu máli og sé kannski einn af þessum stóru þáttum er snúa að stöðu kvenna í dreifbýli og þar með stöðu kvenna í heild.