Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:00:21 (3594)

1998-02-10 15:00:21# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:00]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessa áskorun hv. formanns félmn. og tel að það sé alveg einsýnt að við förum sérstaklega ofan í þennan þátt og styrkjum hann í meðförum þingsins. Ég held að ef við skoðum þessi mál með mikilli sanngirni þá sé ekki annað hægt en segja að við hljótum sérstaklega að beina sjónum okkar að hlut kvenna á landsbyggðinni og þeim vanda sem þær margar hverjar standa frammi fyrir vegna þessa skorts á fjölbreytni í atvinnulífinu sem nútímaþjóðfélag bókstaflega kallar á.

Þá hljótum við að velta fyrir okkur hvernig við getum svarað þessu. Ég held að eitt svarið sé að flytja skipulega verkefni úr stofnunum ríkisins út á landsbyggðina vegna þess einfaldlega að nútímatækni, nútímasamgöngur og nútímaaðstæður gera það að verkum að mjög einfalt og auðvelt er að gera þetta. Við þurfum ekki annað en skoða hverja stofnun fyrir sig og eftir hvaða lögum hún starfar til að sjá að mjög mörg þau verkefni sem þessum stofnunum er ætlað að sinna geta allt eins verið unnin á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi. Það er einfaldlega einhvers konar vani. Pólitískan kæk hef ég stundum kallað það, að setja þessar stofnanir allar niður á einn stað og gera þar með fólki ómögulegt annað en flytja búferlum. Fólkið á með öðrum orðum enga aðra völ. Konur eiga engra kosta völ þegar þær hafa leita sér menntunar á ýmsum sviðum en að fara til Reykjavíkur, þar sem atvinnutækifærin bíða, vegna þess að ríkisvaldið hefur verið að búa þau til hér á þessu svæði. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að við reynum, ef við ætlum í raun og veru að taka á vandamálum kvenna á atvinnusviðinu, að nálgast þetta mál eins ég hef verið að lýsa og ég tel að formaður félmn. hafi verið að hvetja til.