Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:02:39 (3595)

1998-02-10 15:02:39# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ég vil byrja á að taka undir þá ósk að hæstv. ráðherra taki saman upplýsingar um hvað af síðustu framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum komst í framkvæmd og hvað ekki. Miðað við síðustu áfangaskýrslu hæstv. ráðherra virtist ansi margt vera óunnið og þá er vert að velta því fyrir sér hver tilgangurinn er eiginlega með áætlun af þessu tagi.

Ég vil taka undir það með öðrum að þótt tilgangurinn væri ekki annar en sá að ræða málin þá er það betra en ekkert, en vissulega væri óskandi að hér væri raunveruleg framkvæmdaáætlun sem gert væri ráð fyrir að kæmist í framkvæmd. En því miður hafa framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum sem hafa verið gerðar á síðustu árum ekki sýnt að þær komist í framkvæmd og ég hef enga ástæðu til að ætla að núverandi ríkisstjórn sýni meiri stórhug í þessum málaflokki en þær sem á undan henni hafa setið.

Ég vil taka undir það að ýmislegt nýtt er í þessari áætlun og margar ferskar hugmyndir og því ber vissulega að fagna og ég vil viðurkenna það. Þar vil ég fyrst nefna þá merku stefnumörkun að ríkisstjórnin segist ætla að samþætta jafnréttismálin inn í alla málaflokka og nota til þess samþættingaraðferðina svokölluðu sem nýlega hefur verið kynnt sérstaklega í bæklingi frá skrifstofu jafnréttismála. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt á vettvangi Norðurlandaráðs og víðar að vinna í þeim anda.

Þá vil ég sérstaklega fagna verkefni ríkisstjórnarinnar sem nefnt er á bls. 2 í þessu plaggi um að kyngreina tölfræði og að kanna hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynja og einnig liðnum um konur og efnahagsmál. Þetta eru þó yfirleitt allt saman kannanir eða nefndarskipanir. Oft virðist því vera auðveldara að fá einhvers konar athuganir í gang fremur en að gera eitthvað sem skiptir máli.

Vegna samþættingaraðferðarinnar vil ég ítreka það sem við höfum gert áður hér á þessu þingi í tengslum við frv. sem við kvennalistakonur og fleiri höfum flutt, að til þess að samþættingaraðferðin komist í framkvæmd í raun þarf í fyrsta lagi pólitískan vilja. Í öðru lagi þarf ákveðin tæki eins og t.d. almennileg jafnréttislög eða kyngreindar upplýsingar eða fjármagn til að fylgja þessum málum eftir og einhvers konar eftirlitsstofnun og eftirfylgni og í þriðja lagi þarf fræðslu og þekkingu. Því miður virðist ýmislegt af þessu skorta hjá núverandi ríkisstjórn, þó svo virðist að taka eigi á fræðsluþættinum, samanber lið 3.2. í III. kafla og það eigi einnig að taka á þessum lið með kyngreind gögn sem er smátt og smátt að komast í æ betra horf, samanber þennan bækling frá Hagstofu Íslands sem áður hefur verið nefndur í umræðunni. En ég kem nánar að því hvað skortir á í kyngreiningu gagna á eftir þegar ég ræði um málefni einstakra ráðuneyta.

Hæstv. forseti. Áður en ég kem að því vil ég vekja athygli á því að þótt komin séu kyngreind gögn og það eigi að koma á fræðslu, vantar verulega fjármagn. Og ég vil taka undir það sem bent var á áðan, að öll þau verkefni sem eru í þessari áætlun eiga að kosta á bilinu 7--10 millj. kr. En ef við berum saman stofnanir eins og Jafnréttisráð og Samkeppnisstofnun, þá fær Samkeppnisstofnun sem er eftirlitsaðili fyrir framkvæmd samkeppnislaga, um fjórum eða fimm sinnum meira fjármagn en Jafnréttisráð. Það er alveg ljóst að til að þessi mál verði tekin alvarlega þá þarf mun meira fjármagn til að fylgja þeim eftir og betri stofnanir eins og ég kem að á eftir.

Ég vil í sambandi við fræðsluþáttinn sem nefndur er í lið 3.2. benda á tillögu til þingsályktunar sem hér er á dagskrá í dag, um jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn. Sú tillaga er flutt að fyrirmynd Svía en þar var greinilega mjög mikill pólitískur vilji fyrir þessu máli sem birtist m.a. í því að ríkisstjórn Ingvars Carlssonar, sú sem síðust sat, byrjaði á því að setja alla ráðamenn, ráðherra þar með talda og aðstoðarmenn þeirra, á námskeið í jafnréttismálum og kom upp alveg ákveðnu kerfi til að fylgja því eftir að þeir sinntu þessum málum innan sinna ráðuneyta. Þetta var m.a. gert vegna þess að þá var útlit fyrir kvennaframboð, svokallaðar ,,stuðningssokkur`` er gætu fengið 30--40% atkvæða í sænskum kosningum ef þær hefðu boðið fram, og því buðu stjórnmálaflokkarnir kvenfrelsiskonum gull og græna skóga og m.a. var þetta það sem Ingvar Carlsson lagði til, að jafnréttismálin yrðu sett á oddinn á þennan hátt. Þetta tókst ákaflega vel enda eru Svíar núna meðal fremstu þjóða í jafnréttismálum. Ég sé engin merki þess, því miður, að þessi ríkisstjórn hafi þennan pólitíska vilja.

Tíminn flýgur sé ég. Ég ætla aðeins út af umræðunum áðan að nefna málefni frá forsrn. og þá liðinn 1.1. í III. kafla, Endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum, sem hér hefur nokkuð komið til umræðu. Þar er um að ræða nefnd sem ég reyndar sjálf sit í, nefnd forsrh. um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga. Þessi nefnd á samkvæmt þessum lið að skoða sérstaklega hvernig breytingar á kjördæmaskipan eða kosningalögum komi til með að hafa áhrif á jafnrétti kynjanna. Þetta er fagnaðarefni. Ég hef auðvitað lagt áherslu á þetta nú þegar í nefndinni en það er gott að vita af þessum lið þarna og ég mun sannarlega sjá um að honum verði fylgt eftir.

Ég hef ekki meiri tíma að sinni, hæstv. forseti, en mun reyna að komast aftur á mælendaskrá og ljúka ræðu minni.