Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:44:47 (3600)

1998-02-10 15:44:47# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:44]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Á Íslandi er risið stórfyrirtæki sem byggir á því hvað Íslendingar eru fróðir um ættir sínar. En nú er það komið fram hér í umræðunni að ættirnar geti jafnvel verið grunnurinn að misréttinu því sumir séu svo stórættaðir.

[15:45]

Ég hef nú aldrei hugleitt það hversu stór ætt liggur á bak við nafnið Blöndal, (Félmrh.: Mjög stór.) en ég hef heldur ekki áttað mig á því að menn þurfi að vera í réttum flokki til að þetta nýtist. Mér fannst eiginlega hv. þm. tala í nokkru líkindamáli, þ.e. hvort það væri Sjálfstfl., Alþfl., Kvennalistinn, (Gripið fram í: Eða Framsfl.) eða Framsfl. Það þarf að tala miklu skýrar svo menn átti sig á þessu. Það þýðir ekki að fara í kringum þetta eins og köttur kringum heitan graut. Ég skora á hv. þm. að gera hreint fyrir sínum dyrum: Hverjar eru þessar ættstóru konur sem hann telur að muni nú sigla fram og hafa sigur? Þá áttum við okkur á því hver flokkurinn er ef þetta er á dagskrá þannig að þingheimur verði upplýstari eftir.

Ég ætlaði að víkja að nokkrum atriðum sem mér virðast hafa þvælst fyrir lengi. Eitt er að ráðherrar hafa löngum sagt: ,,Þessir aðilar eiga að tilnefna og því ræð ég engu. Þeir tilnefndu karlmenn.`` Það er ekki nema ein leið til að leysa þetta og það veit ég að hæstv. félmrh. af sínu klækjaviti hefur fyrir löngu áttað sig á. Það er að gefa fyrirmæli um það að ekki verði farið eftir neinum tilnefningum nema viðkomandi tilnefni tvo. Annars vegar karl og hins vegar konu og svo velji ráðherrann á milli og tryggi að niðurstaðan verði í samræmi við þessa kenningu, 40--60 á annan hvorn veginn. Þetta er út af fyrir sig mjög einfalt og getur ekki verið mjög flókið. Það þarf enga fimm ára áætlun til að framkvæma þetta.

Hitt atriðið er að það þýðir ekki að hefja hér umræðu um jafnréttismálin á þann hátt að stilla karlpeningnum upp sem sakamönnum sem beri ábyrgð á því hvernig komið er. Sannleikurinn er nefnilega sá að við studdum fimm ára áætlun á sínum tíma. En ég játa það hér og nú að ég hef aldrei haft mikla trú á svona áætlanagerð vegna þess að þegar ég kynnti mér rússnesku áætlanagerðina þá var hún alltaf til fimm ára og það var alltaf niðurstaðan að hún hefði ekki tekist og menn eyddu aldrei mikilli umræðu í það hvers vegna hún hefði ekki tekist, heldur var ákveðið að fara af stað með nýja fimm ára áætlun. Bandaríkjamenn eru fyrir löngu búnir að leysa það mál og segja: Hvað gerir forsetinn á fyrstu 90 dögunum? Það held ég sé kjarni málsins. Snúa menn sér að þessu af alvöru eða ekki?

Ég ætla líka að gagnrýna það að mér finnst að konur hafi aðeins sótt fram í pólitíkinni en ekki á sviði efnahagsmála sem þær þó hafa haft nokkuð á hreinu hvað þær þyrftu að gera. Hvers vegna hættu þær við að stofna sparisjóðinn? Það er snjallasta hugmyndin sem fram hefur komið. Það var vísasti vegurinn til að færa konum völd í öllum bönkum Íslands ef þær hefðu gert það. Hvers vegna? Vegna þess að þá hefði karlpeningurinn orðið skíthræddur um að konur færðu sitt fjármagn úr bönkunum yfir í þennan banka nema þeir myndu auka völdin í hinum bönkunum. Þetta er einfalt lögmál og þetta lögmál gildir. En meðan þetta er ekki leyst og þær geta ekki sýnt fram á að þær séu búnar að stofna lánastofnun sem þjónar konum --- ,,komið með peningana hingað`` --- þá nenna hinir ekki að taka mark á þessu og þrjóskast við og það kemur fram eftir ýmsum leikreglum hvernig þeir hafa farið í kringum þetta.

Annað atriði sem ég tel út af fyrir sig að hafi verið af hinu góða hefur verið framkvæmt að vissu marki og er Lánatryggingasjóður kvenna. Sannleikurinn er aftur á móti sá að hér er verið að tala um skiptimynt, hreina skiptimynt. Þetta ræður ekki úrslitum. Það sem þarf að skoða í þessu sambandi er hvort sjóðurinn sem verið er að tala um hér, Nýsköpunarsjóðurinn, er líklegur til að leysa þessi mál. Ég held hann sé ekki líklegur til þess og ég skal segja ykkur hvers vegna. Það er búið að taka ákvörðun um það að sjóðurinn ætlar fyrst og fremst að leggja fram hlutafé. Lægsta upphæð er 10 millj. og skilyrði sjóðsins fyrir að leggja fram hlutafé er að hann fái stjórnarformanninn í viðkomandi fyrirtæki, þ.e. ef konur stofna fyrirtæki og ætla að fá stuðning hjá Nýsköpunarsjóðnum, þá mega þær hér um bil eiga það víst að þær fá karlmann til að vera stjórnarformann í viðkomandi fyrirtæki. Mér sýnist því að þetta muni ekki leysa þetta mál. Ég held aftur á móti að sá sjóður sem einu sinni var notaður til að byggja upp atvinnulífið í landinu eigi að vera notaður í dag í þessu skyni og það er Atvinnuleysistryggingasjóður. Það á að nota hann í þessu skyni. Og hvers vegna á að nota hann í þessu skyni? Vegna þess að atvinnuleysi kvenna er miklu meira en atvinnuleysi karla. Það blasir við. Og allt bendir til þess að uppbygging atvinnulífsins í þjóðfélaginu í dag stefni í þá átt að mun meiri aukning verði í störfum sem karlmenn sækjast eftir en störfum sem konur sækjast eftir. Þess vegna held ég að það sé rökrétt hjá félmrh., svo hann eigi það ekki undir neinum öðrum ráðherrum, að beita sér fyrir því að farið verði í þá aðgerð að bjóða konum, sem vilja taka þátt í atvinnurekstri og leysa þann vanda sem þjóðfélaginu er á höndum við að afla nægra starfa fyrir konur, stuðning á sviði fjármagns til að leysa þetta. Ef menn halda að hér sé eitthvað nýtt á ferðinni, þá ætla ég að fullyrða að þessi aðferð var notuð um land allt á sínum tíma til að leysa staðbundið atvinnuleysi á hinum ýmsu stöðum um land allt.

Það er fleira sem kemur inn í þetta. Hvernig halda menn að það geti gerst, þegar lögmál framboðs og eftirspurnar er slíkt að miklu minni eftirspurn er eftir konum hlutfallslega í stöðunni og miklu meira offramboð af þeim en karlmönnum til starfa, að það jafnist út í réttlætisátt? Það gerist einfaldlega ekki undir þeim kringumstæðum. Og svo má segja til viðbótar að kerfið lekur. (Forseti hringir.) Það er nefnilega staðreynd að dælt er alveg stöðugt inn í samfélagið útlendingum sem fara í samkeppni um þau störf sem konur eru að vinna. Þetta er gert. Þetta var gert af hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma. Þetta er einnig gert nú af hæstv. félmrh. Páli Péturssyni. Ég fullyrði að meðan (Forseti hringir.) þetta er svona þá gengur dæmið ekki upp.

Nú er forseti staðinn á fætur þannig að ekki er um annað að ræða en að yfirgefa stólinn. En hvernig bregðast karlmenn við ef það á að dæla mönnum inn í þeirra stéttir? Þá er bara öskrað og sett á fulla ferð til að stoppa það.