Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:48:41 (3610)

1998-02-10 16:48:41# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:48]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef því miður misst af stórum hluta umræðunnar og vona að ég fari ekki að endurtaka neitt en ég hélt reyndar umræðunni áfram í leigubílnum sem ég tók því að leigubílstjórinn reyndist mikill áhugamaður um jafnréttismál, nýkominn úr fæðingarorlofi, og mjög þakklátur fyrir það. En ég vil spyrja út í tvö atriði. Hið fyrra snertir utanrrn., en í síðustu framkvæmdaáætlun var ákvæði um að þróunaraðstoð þyrfti að beina sérstaklega að konum en ekkert slíkt er í þessari áætlun og mér skilst að þetta atriði hafi ekki borið á góma í umræðunni. Þetta er mjög mikilvægt atriði og mér finnst slæmt að það skuli hafa dottið út og ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna. Annað atriði sem ég get ekki stillt mig um að minna á er á bls. 5 og er 3. liður undir hatti hæstv. félmrh. og lýtur að aukinni virkni kvenna í stjórnmálum og hljóðar svo: ,,Skipuð verður nefnd sem falið verður að kanna hvernig megi auka virkni og þátttöku þeirra í almennu stjórnmálastarfi.``

Af því tilefni hlýt ég að minna á stórmerkilega ráðstefnu á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldin var fyrir réttu ári í Nýju-Delhi í Indlandi. Þar var nákvæmlega þetta efni rætt í heila fjóra daga og mjög mörg atriði komu fram á þeirri ráðstefnu. Gerð var skýrsla um ráðstefnuna og þar komu fram fjölmörg atriði sem væri áreiðanlega gott að hafa í veganesti inn í slík nefndarstörf. Þetta er því fremur ábending en spurning en þó væri mjög æskilegt ef hæstv. ráðherra hefði ráðrúm til þess að gera stuttlega grein fyrir því hvernig hann hyggst framkvæma þetta eða hvernig verði staðið að framkvæmd þessa liðar.