Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:56:22 (3614)

1998-02-10 16:56:22# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra var mjög snöggur að svara þegar ég spurði hann um hvernig hann vildi beita sér í að auka þátt kvenna í stjórnmálum. Þarna liggur einmitt hundurinn grafinn eins og kom fram í svari ráðherra og ráðherrann sagði svo: ,,Það er fjarri lagi að ég segi af mér.`` Það er nefnilega svo að ef konur eiga að komast að þurfa karlmenn líka að víkja, sætin eru fá, en alltaf er bent á einhvern annan. Ekki ég. Ég er ekki tilbúinn til að víkja en ég vil gjarnan auka hlut kvenna. Þetta er einmitt vandamálið. Ráðherrann opnaði ekki einu sinni á það að ef ráðherraskipti yrðu að hleypa konu inn í ríkisstjórnina þó að ekki sé nema ein kona þar núna. Ég get því ekki tekið ráðherrann alvarlega eða þessa setningu í framkvæmdaáætluninni þegar hæstv. ráðherra er ekki einu sinni tilbúinn að taka til heima hjá sér og að fjölga konum í ríkisstjórninni.

Ég tel jafnréttisáætlanir mjög mikilvægar og ég ítreka það. Ég er ekki endilega að tala um að skylda öll ráðuneyti og undirstofnanir til að gera þær þó að út af fyrir sig væri rökrétt að gera það vegna þess að það gekk erfiðlega að fá ráðuneytin og ríkisstofnanir til þess á sínum tíma. En það er margt í áætluninni sem segir einungis: að beina tilmælum til, að athuga o.s.frv. Þess vegna tel ég að hjá hverju einasta ráðuneyti ætti að standa að það ætti að stefna að því að gera jafnréttisáætlanir reglulega. Ég beini því til nefndarmanna í félmn. að það verði sérstaklega skoðað að gerðar séu jafnréttisáætlanir sem hafi ákveðið markmið og þá er ég sérstaklega að tala um launamálin vegna þess að launamisrétti viðgengst hjá hinu opinbera. Hið opinbera brýtur jafnréttislög hvað eftir annað og sýnir ekki gott fordæmi í því efni. Ég tel mjög brýnt að fá það inn og beini því til ráðherrans, hvort hann sé eitthvað mótfallinn því að nefndin taki inn ákvæði undir hvert einasta ráðuneyti að jafnréttisáætlanir séu gerðar.