Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 17:03:40 (3620)

1998-02-10 17:03:40# 122. lþ. 63.2 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[17:03]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Atvinnuleysi hefur ekki sem betur fer verið viðvarandi á Íslandi um mjög langan aldur en segja má að það hafi skipt um í upphafi þessa áratugar. Allt frá því í kreppunni miklu og frá því að henni lauk og fram til ársins 1991 með undantekningu á árunum 1968 og 1969, hefur verið full atvinna á Íslandi og það hefur verið svo að menn hafa ekki gert ráð fyrir því hér að heitið gæti, að svo gæti farið að um yrði að ræða verulegt atvinnuleysi.

Þau tíðindi sem urðu hins vegar með þeirri efnahagsstjórn sem fylgt var frá og með árinu 1991, þ.e. frá því að Davíð Oddsson tók við völdum hér á landi, þ.e. sú efnahagsstjórn hefur haft það í för með sér að verið hefur viðvarandi atvinnuleysi hjá mörgum þúsundum manna allan þann tíma sem liðinn er frá því á árinu 1991. Þessi fjöldi hefur verið mismunandi mikill. Nú um stundir er heldur fámennara í þessum hópi en var um skeið. En það breytir því ekki að þúsundir Íslendinga búa nú við atvinnuleysi og þá félagslegu og efnhagslegu óvissu sem því fylgir.

Því miður er ekki mikið talað um atvinnuleysi og rétt atvinnulausra í þessari virðulegu stofnun. Það er heilmikið talað stundum um Atvinnuleysistryggingasjóð og stöðu hans en því miður eru umræður allt of litlar um hag þeirra sem ekki hafa atvinnu, hag þeirra sem hafa ekki aðstöðu til þess og möguleika á því að selja vinnuafl sitt sem er það eina sem þeir eiga.

Af þeim ástæðum er mjög mikilvægt að hér er komin fram tillaga sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Kristínu Ástgeirsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Guðmundi Árna Stefánssyni um rétt þeirra sem ekki hafa atvinnu. Ég vildi kannski nefna það, herra forseti, hvort það er ekki nokkuð ljóst að hæstv. félmrh. er hér ekki langt undan vegna þess að ég hefði viljað leggja fyrir hann eina eða tvær spurningar í tengslum við þetta mál. Er hann farinn? Það gengur ekki.

(Forseti (GÁ): Nú hefur það gerst að hæstv. félmrh. er farinn úr húsi.)

Ef svo er, herra forseti, þá óska ég eftir að gera hlé á ræðu minni því að um það var talað að ég tæki málið því aðeins fyrir að hæstv. félmrh. væri í húsinu.

(Forseti (GÁ): Forseti verður við þeirri ósk og frestar umræðunni á meðan og tekur fyrir næsta mál.)

Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort hann geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. komi aftur á þessum fundi.

(Forseti (GÁ): Ég get upplýst að ég hef ekki kynnt mér málið en verð að fá tíma til þess.)

Ég mun halda áfram ræðu minni ef hæstv. forseti vildi kynna sér málið og kanna hvort hæstv. félmrh. er væntanlegur fljótlega.

(Forseti (GÁ): Þá höldum við áfram umræðunni.)

Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og vinnumarkaðarins til þess að semja heildstæða skýrslu um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu, eru að leita sér að vinnu eða hafa misst vinnu og gera tillögur til að bæta hag þeirra og tryggja þeim skilyrðislaust sömu mannréttindi og aðrir hafa. Nefndin skili áliti fyrir 1. júní 1998 og fjalli m.a. um eftirfarandi atriði:

1. Hvort þeir sem ekki hafa atvinnu njóti sömu mannréttinda og þeir sem hafa atvinnu og ef svo er ekki hvaða aðgerða sé þörf til úrbóta, bæði hvað varðar opinbera aðila og einkaaðila.

2. Hvernig unnt sé að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en sex mánuði í senn.

3. Hvort líta megi á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur eins og nú er gert, enda verði nýtt fyrirkomulag ekki notað til að knýja fólk til vinnu sem það á erfitt með að sinna.

4. Hvort koma eigi upp miðstöðvum fólks í atvinnuleit um land allt með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur í Reykjavík og á Akureyri.

5. Hvort unnt sé að draga verulega úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu.

6. Hvort unnt sé að ná um það víðtæku samkomulagi að afnema atvinnuleysi á tilteknu árabili og tryggja það í lögum eða stjórnarskrá að allir eigi rétt á vinnu við hæfi.

Í greinargerð segir svo, með leyfi forseta:

,,Vinnuaflið er það eina sem ekki verður frá okkur tekið nema við heilsubrest. Flestir hafa framfæri af því að selja vinnuafl sitt og hafa af því tekjur. Vinnuaflið er margs konar þekking eða þjálfun og hvað eina annað. Við`` --- sem hér erum --- ,,höfum tekið ákvörðun um að notast við markaðsþjóðfélagið sem efnahagslega hreyfivél samfélagsins. Í slíku samfélagi skapast oft þær aðstæður að fólk missir atvinnuna nema gripið sé til sértækra ráðstafana og gildir þá einu hvort um er að ræða ríkisfyrirtæki, annan félagslegan rekstur eða einkafyrirtæki. Hvar sem fólk vinnur getur það orðið fyrir barðinu á atvinnuleysi. Þess vegna er það sameiginlegt verkefni okkar allra en ekki aðeins þeirra sem verða atvinnulausir að grípa til samfélagslegra ráðstafana til þess að tryggja að atvinnulausir geti staðið uppréttir frammi fyrir vandamálum dagsins rétt eins og þeir sem geta selt vinnuafl sitt; að sá sem er án atvinnu njóti með öðrum orðum mannréttinda.

Mikið vantar á að atvinnulausir geti treyst því að staða þeirra sé metin sem skyldi. Þess vegna er tillagan flutt, bæði til að knýja fram úrbætur og minna á skyldur þingmanna og ráðherra í þessum efnum. Atvinnuleysistryggingasjóður var mikið baráttumál á sinni tíð. Hann hefur þjónað vel en sl. vetur var hann skemmdur verulega með löggjöf sem félagsmálaráðherra knúði í gegnum þingið þar sem m.a. bótaréttur var skertur.

Tillagan er að nokkru leyti framhald af tillögum Alþýðubandalagsins á fyrri þingum um rétt atvinnulausra.``

Á síðasta kjörtímabili var ég 1. flm. að mjög ítarlegu frv. um réttindi atvinnulausra sem við fluttum þá öll í þingflokki Alþb. Það mál var lagt hér fyrir tvisvar og er skemmst frá því að segja að um það gilti ekki það sem oft gildir um stjórnarandstöðutillögur, að því hafi verið tekið með þegjandahætti. Því var beinlínis mjög illa tekið af þáverandi ríkisstjórn. Og þáv. ráðherrar beittu sér mjög harkalega gegn því frv. eins og það lá fyrir, um rétt þeirra atvinnulausu. Þessi tillaga er í framhaldi af þeim tillöguflutningi.

Í þessu frv. er hreyft því nýmæli að kannað verði hvort líta eigi á atvinnuleysisbætur sem atvinnuleysislaun. Rökin eru þau að bæturnar séu í raun laun sem samfélagið, sem ber ábyrgð á atvinnuleysinu, greiðir hinum atvinnulausa. Hins vegar er þessi hugmynd vandmeðfarin þar sem hætta ...

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa hv. þm. um að ekki er búist við að hæstv. félmrh. komi til baka á þennan fund.)

Með hliðsjón af því, herra forseti, óska ég eftir því að gera nú hlé á ræðu minni en halda henni áfram þegar hæstv. félmrh. er hér. Ég minni á að þetta er 71. mál þingsins og ég er búinn að bíða eftir því í allan vetur að fá tækifæri til að ræða þetta við hæstv. félmrh. á fundi. Það er þegar orðinn of langur tími. Ég kýs þó að gera hlé á ræðu minni nú í trausti þess að ég fái málið tekið fyrir hið allra fyrsta og óska eftir því við hæstv. forseta að hann ljái mér atbeina sinn til þess að svo geti orðið.

(Forseti (GÁ): Forseti skal fylgja því eftir að þetta mál komi hér sem allra fyrst á dagskrá aftur)