Viðvera ráðherra

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 17:14:40 (3623)

1998-02-10 17:14:40# 122. lþ. 63.89 fundur 209#B viðvera ráðherra# (um fundarstjórn), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[17:14]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það gildir sama um mig og hv. þm. Svavar Gestsson, að ég á hér mál á dagskrá í dag. Það er 5. mál á dagskrá og hefur reyndar mun hærra númer en mál hv. þm. Svavars Gestssonar. Svo hafði talast til að ég mælti fyrir mínu máli að hæstv. félmrh. viðstöddum vegna þess að um er að ræða mál sem ég vil gjarnan bera undir hann og heyra hans viðbrögð við og hvað sé að gerast í vikomandi máli sem er atvinnuleysi kvenna. Ég vil því óska eftir því við hæstv. forseta að 5. máli á dagskrá verði einnig frestað vegna fjarveru ráðherra. Ég harma það að þegar það hefur talast þannig til við þingmenn að þeir mæli fyrir sínum málum á degi þar sem ráðherra getur verið viðstaddur, þá komi í ljós að hann geti það hreinlega ekki. Mér er kunnugt um það hvar ráðherrann er. Hann er viðstaddur ákveðna athöfn sem snertir hans ráðuneyti. En við hefðum auðvitað þurft að vita um þetta því það var löngu vitað að sá viðburður yrði. Ég ítreka þá beiðni mína, hæstv. forseti að fá að fresta mínu máli, 5. máli á dagskrá.