Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:40:09 (3638)

1998-02-11 13:40:09# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:40]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Því ber að fagna að frumkvæði sjómannastéttarinnar hafi leitt til þess að verkfalli hafi verið frestað og viðræður hafist aftur. Í því ljósi er frumhlaup ríkisstjórnarinnar enn þá alvarlegra og ótímabær afskipti hennar af deilunni. Þetta var lítilsvirðing ekki einungis við sjómenn heldur einnig við Alþingi og kom í ljós að frv. sjálft var þannig úr garði gert að það var álitamál hvort um var að ræða stjórnarskrárbrot og brot á alþjóðlegum samningum. Málsmeðferð hefði eðlilega tekið einhverjar vikur en það sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði að gera var að afgreiða málið og gera það að lögum í gær.

Ákvörðun stjórnarandstöðunnar að hleypa málinu ekki í flýtimeðferð leiddi til lausnar þess, þ.e. að málið kæmi aftur upp á samningaborðið. Sárindi hæstv. forsrh. þegar hann er gerður afturreka með frv. sitt eru augljós. Í þessu máli tapaði ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Í þessu máli höfðu sjónarmið sjómanna og stjórnarandstöðunnar sigur. En mikilvægast er að það var þjóðin öll sem vann málið vegna þess að nú fara skip á flot og eðlilegar viðræður byrja milli samningsaðila um kaup og kjör. Þannig eru leikreglurnar og þannig eiga þær að vera. Af þeirri atlögu að samningsrétti og Alþingi, sem gerð var í fyrradag, getum við dregið þann lærdóm að okkur í stjórnarandstöðunni ber að standa hart gegn slíku og virða lög og reglur eins og kveðið er á um í þingsköpum. Við höfðum rétt fyrir okkur hvað það varðar og mátum stöðuna rétt og ég fagna því að sjónarmið sjómannastéttarinnar hafi leitt til þessarar niðurstöðu.