Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:42:20 (3640)

1998-02-11 13:42:20# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld fagnaðarefni að nú liggur fyrir yfirlýsing oddvita ríkisstjórnarinnar um að það frv. sem var kynnt á mánudaginn verði kallað til baka gangi mál eftir með þeim hætti sem menn binda vonir við. Engin ástæða er að deila um að afstaða stjórnarandstöðunnar sl. mánudag leiddi til þess að nauðsynlegt svigrúm fékkst í þessari erfiðu og viðkvæmu kjaradeilu. Það er heldur ekkert deiluefni að hefðu áform hæstv. ríkisstjórnar gengið fram sl. mánudag væru nauðungarlögin í gildi núna og það svigrúm sem ég nefndi áðan hefði ekki verið til staðar. Um þetta þarf ekki neitt að deila. Þetta er deginum ljósara og þetta vita allir.

Ljóst er að eðlilegir samningar geta hafist í þessu nýja andrúmslofti en á hinn bóginn er jafnljóst að ríkisstjórnin hefur kallað boltann til sín og augu samningsaðila og þjóðarinnar allrar beinast nú að ríkisstjórninni og bjargráðum hennar. Hún hefur óskað eftir því að fá málið til sín að verulegum hluta. Þriggja manna nefnd sjútvrh. mun væntanlega hefja störf hið fyrsta. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort þeir tímarammar sem er að finna í þessum drögum að samkomulagi deiluaðila, 10. mars annars vegar og 15. mars hins vegar, séu þess eðlis að hægt sé að búast við því að bjargráð ríkisstjórnarinnar í deilunni komi fyrir hið háa Alþingi fljótlega upp úr 10. mars nk. þannig að Alþingi geti fyrir sitt leyti komið að deilunni verði þess óskað og verði þess þörf á þeim tíma sem um ræðir.