Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:44:22 (3641)

1998-02-11 13:44:22# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. kvað frv. verða dregið til baka, ef ... En það er kannski rétt að rifja það aðeins upp af hverju hinar langvinnu deilur sjómanna og útgerðarmanna hafa staðið.

Krafa sjómanna er tiltölulega einföld. Ekki hefur verið staðið við lög og kjarasamninga sjómanna þar sem segir að útgerðarmenn skuli greiða sjómönnum hækkað verð fyrir hlut þeirra og sjómenn eigi ekki að taka þátt í kvótakaupum útgerðar. Það er ótrúlegt að útgerðarmenn, jafnvel með stuðningi stjórnvalda, skuli fá að halda slíkum réttmætum kröfum burt frá borðinu.

Ég skil vel að hæstv. forsrh. reyni með útúrsnúningum, jafnvel bröndurum, að breiða yfir frumhlaup stjórnarinnar á mánudaginn. Það voru þó viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessum yfirgangi sem björguðu ríkisstjórninni og urðu til þess að skapa nýtt svigrúm í málinu og það svigrúm hafa sjómenn sem betur fer nýtt. Ég skora á forsrh. að draga frv. strax til baka svo að útgerðarmenn sýni fulla ábyrgð því að það er fráleitt að láta löggjöf hanga yfir þegar sjómenn eru tilbúnir til að fresta verkfalli sínu.