Atvinnuleysi kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:16:36 (3659)

1998-02-11 14:16:36# 122. lþ. 64.2 fundur 411. mál: #A atvinnuleysi kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þessu þingi hefur ekki mikið verið rætt um atvinnuleysi þó að yfir 5 þús. manns hafi verið atvinnulausir á sl. ári. En nú í desember sl. --- þ.e. samkvæmt nýjustu atvinnuleysistölum --- voru 5.554 á atvinnuleysisskrá og það í góðæri eins og ríkisstjórnarflokkarnir eru sífellt að klifa á. Vissulega er nauðsynlegt að taka umræðu á Alþingi almennt um atvinnuleysi, en hitt er enn brýnna að ræða atvinnuleysi kvenna sem er gífurlega mikið og var í desember sl. helmingi meira hjá konum en körlum eða 5,4% hjá konum og 2,5% hjá körlum. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur atvinnuleysi kvenna verið um 6% allan tímann meðan atvinnuleysi karla hefur verið á þessum árum allt að helmingi minna.

Herra forseti. Tímabært er að leitað sé skýringa á þessu. Því liggja hér fyrir tvær fyrirspurnir til hæstv. félmrh. á þskj. 732 þessu máli tengdar. Sú fyrri hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

1. Hvaða skýringu hefur ráðherra á því að atvinnuleysi var rúmlega tvöfalt meira á landinu öllu hjá konum en körlum í desember sl., eða 5,4% hjá konum og 2,5% hjá körlum?

2. Er einhver sérstök skýring á því að á Norðurlandi vestra var atvinnuleysi kvenna nærfellt þrisvar sinnum meira en karla í desember sl., eða 7,8% hjá konum og 2,8% hjá körlum?

Varðandi 2. tölul. fyrirspurnarinnar vekur það athygli að atvinnuleysi kvenna er nærfellt þrisvar sinnum meira en karla á Norðurl. v. sem vill til að er kjördæmi félmrh. Nauðsynlegt er að fá fram hvaða sérstaka skýring liggur til grundvallar svo miklu atvinnuleysi kvenna á Norðurl. v. Sama á reyndar við um fleiri staði eins og Suðurland og Suðurnes þar sem sjá má svipaða þróun. Því er sérstaklega spurt um þetta kjördæmi.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi svör við þessum spurningum.