Atvinnuleysi kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:24:39 (3661)

1998-02-11 14:24:39# 122. lþ. 64.2 fundur 411. mál: #A atvinnuleysi kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að mikil þörf er á því að ræða sérstaklega um atvinnuleysi kvenna. Það sýnir sig mánuð eftir mánuð að atvinnuleysi meðal þeirra er allt að helmingi meira en meðal karla og virðist vera orðið viðvarandi í vissum landshlutum. Ég held þó að það sé brýnast að kanna mjög rækilega hvað þarna býr að baki, hverjar orsakirnar eru og til hvaða ráða er hægt að grípa í framtíðinni og jafnframt að horfa enn lengra fram í tímann því að við erum auðvitað að upplifa miklar tæknibreytingar sem eru líklegar til þess að fækka hinum hefðbundnu störfum kvenna.

Í því samhengi, hæstv. forseti, vil ég benda á að hér liggur fyrir tillaga um rannsókn á atvinnuleysi kvenna og aðgerðir til að draga úr því sem var á dagskrá í gær en komst ekki að. Hún verður vonandi rædd hér á allra næstu dögum þannig að við getum gefið okkur góðan tíma til að ræða þetta mjög svo alvarlega mál.