Aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:49:41 (3671)

1998-02-11 14:49:41# 122. lþ. 64.4 fundur 412. mál: #A aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vafalaust kann ég ekki allar skýringar og þær eru áreiðanlega margar. Ein skýringin er sú að nú eru erlendar konur komnar til starfa í þjóðfélaginu í miklu meira mæli en áður hefur verið. En rétt er að hafa í huga að á útmánuðum 1995 var allt að 7% atvinnuleysi. Nú er það þó komið niður í 3--3,5% mínus þessi 20% sem eru í hlutastörfum þannig að um 2,5--3% eða 2,8% eru alveg án vinnu. Það er of mikið og ég er sammála því.

Varðandi þetta með örorkuna þá er sjálfsagt eitthvað til í því að fólk, sem á í einhverjum erfiðleikum þannig að um örorku getur verið að ræða, eigi erfiðara með að fá sér vinnu en þeir sem eru fleygir og færir. Ég býst við að eitthvað sé til í því. Hins vegar er það út af fyrir sig áhyggjuefni hvað öryrkjum virðist hafa fjölgað geysilega mikið. Það er eitthvað að ef öryrkjum fjölgar eins hratt og tölur benda til á síðustu árum. Og það er ekki allt atvinnuleysi að kenna. Ég hef ekki nokkra trú á því.

Það er verið að grípa til mjög margvíslegra ráðstafana, mjög margvíslegra aðgerða til þess að reyna að örva atvinnuþátttöku kvenna eða að fjölga störfum. Á vegum félmrn. eru t.d. sjö verkefni ákveðin í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem við ræddum hér í gær sem öll miða að því að fjölga kvennastörfum. Við höfum sett á fót svokallaðan Lánatryggingasjóð kvenna sem á að hjálpa konum til að hefja atvinnurekstur. 20 millj. kr. eru sérmerktar til atvinnumála kvenna á fjárlögum 1998 og þeir peningar koma í góðar þarfir.

Ég ritaði Verslunarmannafélagi Reykjavíkur nú í janúarmánuði svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

,,Í kjölfar frétta af atvinnuleysi meðal félagsmanna í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur er þess hér með farið á leit við yður að komið verði á samstarfi félmrn. og Verslunarmannafélags Reykjavíkur um sérstaka úttekt á orsökum atvinnuleysisins. Vegna mikils meiri hluta kvenna meðal atvinnulausra félagsmanna verði gerð sérstök athugun á aðstæðum þeirra með það m.a. í huga að koma á fót sértækum úrræðum þeim til handa.``

Félmrn. sendi Vinnumálstofnun einnig bréf varðandi þetta mál sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Með vísan til bréfaskrifta félmrn. og Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem þér hafið fengið afrit af, fer félmrn. þess á leit að Vinnumálastofnun tilnefni tengilið sem vinni með Árna Leóssyni, starfsmanni VR, að úttekt á orsökum atvinnuleysis meðal félagsmanna VR. Vegna mikils atvinnuleysis meðal kvenna í VR verði gerð sérstök athugun á aðstæðum þeirra með það m.a. í huga að koma á fót sértækum úrræðum þeim til handa.``

Þessi athugun er komin í gang en niðurstöður af henni liggja ekki fyrir enn þá.

Þá vil ég bæta því við að ég hef átt afar gott samstarf við Sókn í þessu efni. Við höfum staðið fyrir í félagi heimaþjónustunámskeiðum. Það vantar stórlega alltaf fólk í heimaþjónustu. Það eru a.m.k. tvö námskeið búin og þau hafa gefið afar góða raun. Ég hef í hyggju að beita mér fyrir tilraun í samstarfi við Sókn til að koma atvinnulausum til vinnu þar sem verið er að auglýsa eftir ófaglærðu fólki. Eldhús Landspítalans óskar eftir því að fá að flytja inn konur til að vinna þar í eldhúsinu. Sama gegnir með Grund. Ég hef í hyggju að koma á (Forseti hringir.) námskeiði til þess að þjálfa ófaglærðar konur í eldhússtörfum.