Aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:55:25 (3672)

1998-02-11 14:55:25# 122. lþ. 64.4 fundur 412. mál: #A aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:55]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það kemur afar margt athyglisvert fram í þessari umræðu. Hjá mér vaknaði sú spurning við það sem fram kom hjá ráðherra hvort að við þurfum ekki að beina verulega sjónum að launakjörum þessa hóps kvenna og tengslunum við atvinnuleysisbæturnar. Maður spyr sig að því þegar hæstv. ráðherra er að nefna Sókn og eldhúsin þar sem vantar vinnukraft, hvort staðan sé ekki sú að það hreinlega borgi sig ekki að vinna, miðað við það hvað launin eru lág og hverjar atvinnuleysisbæturnar eru og hver kostnaðurinn er við sækja sér vinnu.

Ég ætlaði að nefna það að hæstv. félmrh. verður tíðrætt um erlendu konurnar og vissulega er eitthvað um þær hér í Reykjavík þar sem reyndar atvinnuleysið er mest. En þær eru þó fyrst og fremst í fiskvinnslunni úti á landi eftir því sem ég best veit og ég hef sjálf séð þær þar. Þær eru ekki á þeim svæðum þar sem atvinnuleysið er mest.

Ég vildi líka skjóta því að vegna þess sem fram kom áðan að ég held að veruleg ástæða væri til þess að bæta inn í (Forseti hringir.) jafnréttisáætlunina sem við höfum til meðferðar einhverjum hugmyndum eða áætlunum um að reyna að breyta hugarfari vinnumarkaðrins gagnvart fimmtugum konum og jafnvel fertugum. (Forseti hringir.) Það þarf verulegt átak í því vegna þess að þarna eru að mínum dómi miklir fordómar á ferð, hæstv. forseti, því að konur eru góður vinnukraftur. En ég vek athygli á að atvinnuleysið er mest meðal verslunarmanna og það er ekki endilega ófaglært fólk. Það þarf að skoða hvað býr þarna að baki.