Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:14:44 (3679)

1998-02-11 15:14:44# 122. lþ. 64.7 fundur 408. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 729 hef ég leyft mér að bera fram til hæstv. samgrh. eftirfarandi fyrirspurn:

Hvernig verða tryggðar samgöngur milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða?

Hvenær verður breytt reglum um snjómokstur á Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðum og verður veittur styrkur til áætlunarflugs milli Ísafjarðar og Bíldudals/Patreksfjarðar?

Á Vestfjörðum eru aðstæður þannig að ekki hefur verið unnt að halda uppi daglegum samgöngum allan ársins hring milli norðurhluta og suðurhluta Vestfjarða. Á veturna verða Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði ófærar vegna snjóalaga og vegur ekki ruddur mánuðum saman. Samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins er enginn mokstur á þessum leiðum. Miklu skiptir að stytta þann tíma sem landleiðin er lokuð og áríðandi að vegum verði haldið opnum meðan fært þykir.

Á yfirstandandi vetri hefur verið einmuna snjólétt. Við þær aðstæður á að sjálfsögðu að moka vegi á kostnað ríkissjóðs og halda þeim opnum í stað þess að krefja sveitarsjóði um hlutdeild í kostnaði eins og gert mun hafa verið að þessu sinni. Ég vil því spyrja hvenær reglum um snjómokstur á þessum leiðum verði breytt.

Enn fremur vil ég benda á að engar ferðir eru sjóleiðis á milli svæðanna og enginn stuðningur er af hálfu ríkisvaldsins við áætlunarflug. Ég minni á að þrjár flugleiðir eru styrktar til þess að tryggja reglubundnar samgöngur við þá staði sem eru Grímsey, Gjögur og Raufarhöfn. Aðstæður eru því algerlega sambærilegar í þessu tilviki. Því spyr ég hæstv. ráðherra um hvort veittur verði styrkur til áætlunarflugs á milli svæðanna tveggja, þ.e. milli Ísafjarðar annars vegar og Bíldudals eða Patreksfjarðar hins vegar.