Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:23:04 (3681)

1998-02-11 15:23:04# 122. lþ. 64.7 fundur 408. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég tek undir það hjá hæstv. ráðherra að ekki er við því að búast að unnt verði að halda opnum vegi á milli norður- og suðurhluta Vestfjarða með snjómokstri. Aðstæður eru þannig að þess er ekki að vænta enda fór ég ekki fram á það í fyrirspurn minni heldur hitt sem ég var að ýja að, hvort ráðherra hygðist setja snjómokstur á áætlunarplan Vegagerðarinnar í því skyni að halda þessum heiðum opnum svo lengi fram á haustið sem unnt er. Það munar mikið um þann tíma sem unnt er að treysta á samgöngur fram á haustið frá því sem ella er og hefur verið á undanförnum árum.

Staðreyndin er sú að atvinnulegir hagsmunir eru orðnir gríðarlega miklir á milli þessara svæða og þörfin fyrir tryggar samgöngur hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Ekki verður undan því vikist að skoða hvernig hægt er að tryggja daglegar samgöngur á milli þessara svæða. Þar er litið til þess að veginum verði haldið opnum svo lengi sem unnt er en þar fyrir utan verði litið til flugsamgangna og að ríkisvaldið tryggi að haldið verði uppi reglubundnu áætlunarflugi, a.m.k. fimm daga vikunnar eins og var um langt árabil meðan ríkisvaldið styrkti það flug óbeint með því að fela flugfélaginu að annast póstflutninga milli svæða. Ég skora því á hæstv. ráðherra að íhuga þessi mál vandlega og beita sér fyrir því að á fjárlögum verði veittur styrkur til þess að styrkja áætlunarflug á milli þessara svæða á næsta ári.