Samgöngur á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:25:20 (3682)

1998-02-11 15:25:20# 122. lþ. 64.7 fundur 408. mál: #A samgöngur á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:25]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er svo að fyrirspurnir hafa komið til samgrn. um ýmsar flugleiðir, hvort um það væri að ræða að flug þangað yrði styrkt. Við höfum haldið okkur við það í grófum dráttum að styrkja flug norður á Strandir og til Grímseyjar. Að vísu er rétt að Raufarhöfn var tekin upp nú í fjárlögum og eru þessi mál í athugun og auðvitað verða flugleiðirnar til Raufarhafnar, norður á Strandir og til Grímseyjar boðnar út eða með öðrum hætti staðið að því að styrkja þessar flugleiðir og að gætt sé jafnræðis milli flugfélaga. Auðvitað má ekki gleyma því að þetta flug er náttúrlega fyrst og fremst fyrir íbúana á stöðunum. Ég geri ráð fyrir því að hið sama sé að segja um sjúkraflugið að reglur um styrki til sjúkraflugs verði endurskoðaðar þannig að þar verði líka jafnræði milli flugfélaga og að tryggt sé að þjónusta sé góð við íbúana. Á hinn bóginn er ekki við því að búast að unnt sé að styrkja áætlunarflug víða, ég tala nú ekki um fimm daga í viku, til þess að halda uppi samgöngum milli tveggja staða í sama landsfjórðungi. Ég á ekki von á því að Alþingi treysti sér til þess enda hefur ekki verið þrýstingur á samgrn. frá einstökum héruðum eða þingmönnum í þá átt.