1998-02-11 16:14:08# 122. lþ. 65.92 fundur 213#B afstaða ríkisstjórnarinnar til mögulegra hernaðaraðgerða Bandaríkjanna gegn Írak# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hvað sem öllu öðru líður hefur komið í ljós að við eigum í ríkisstjórn Íslands einkar öfluga hermálaráðherra sem eru greinilega tilbúnir til að fara sjálfir í stríðið. Málflutningur hæstv. menntmrh. og hæstv. utanrrh. áðan í þessum efnum var satt að segja alveg ótrúlegur. Þeir tala alltaf eins og það búi bara einn maður í Írak. Hann heitir Saddam Hussein. Þar séu ekki konur, þar séu ekki börn, þar sé ekki annað fólk. Þar sé bara þessi eini vondi maður sem búi í þessu landi og auðvitað megi sýna honum hvaða hörku sem er. Veruleikinn er hins vegar ekki svona. Þess vegna vekur málflutningur þeirra upp fjölmargar mjög alvarlegar spurningar. Í fyrsta lagi þessa: Er utanrrh. Íslands tilbúinn að axla fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þá meðábyrgð sem kynni að skapast vegna loftárása á íröksku þjóðina, þ.e. á enn frekari dauða og þjáningum saklausra borgara? Erum við tilbúin að axla þessa ábyrgð?

[16:15]

Í öðru lagi: Telur utanrrh. rétt að hervaldi verði beitt gegn öllum ríkjum sem neita að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og búa yfir tortímingarvopnum?

Í þriðja lagi: Er utanrrh. tilbúinn til að beita sér fyrir því að hann eða einhverjir á hans vegum heimsæki Írak til að sjá af eigin raun afleiðingar þeirra aðgerða gegn íröksku þjóðinni sem hann hótar nú fyrir hönd íslensku þjóðarinnar?

Í fjórða lagi: Hvað er það sérstaklega sem ríkisstjórn Íslands vill sprengja í Írak, hve mikið, hversu lengi og hvað svo?

Fimmta spurningin er: Getur Ísland ekki haft sjálfstæða afstöðu og neitað um aðgang að Keflavíkurflugvelli?

Þessar spurningar og margar fleiri vakna. Það er líka umhugsunarefni að þegar svo alvarleg stríðsyfirlýsing birtist af hálfu Íslands, þá skuli menn ekki hafa svo mikið við að kalla saman utanrmn. til fundar.