Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:46:23 (3713)

1998-02-12 10:46:23# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:46]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hvet stjórnarsinna til þess að horfa ekki bara á málið frá sjónarhóli hagsmuna þeirra á líðandi stund. Framsfl. var í stjórnarandstöðu þegar þetta ákvæði var sett og þeir sem muna eftir stjórnarandstöðu Framsfl. þurfa ekki að velkjast í vafa um það að með stuðningi sínum við þessi tvö ákvæði sem ég nefndi var Framsfl. að tryggja að ríkisstjórn með einföldum meiri hluta gæti ekki vaðið yfir Alþingi. Það kynni að vera að Framsfl. ætti einhvern tíma eftir að fara í stjórnarandstöðu og þá er ég alveg sannfærður um að Framsfl. mun skoða þetta ákvæði þingskapa eins og þingið hefur nú gert. Þetta er ekki mál stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta er mál þingsins sem stofnunar sem er að tryggja stöðu sína gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er rétt hjá hv. þm. Geir H. Haarde að það hefur aldrei fyrr gerst að mál ríkisstjórnar hafi ekki fengið flýtimeðferð ef hún hefur óskað eftir því. En skýringin á því er sú að með þingskapabreytingunni 1991 var í fyrsta skipti gefinn möguleiki á því að það þyrfti aukin meiri hluta á Alþingi til slíks. Ég spyr hv. þm. Geir H. Haarde sem var tillögumaður að þessu: Vakti það fyrir honum í tillögu hans að því aðeins ætti ákvæðið um aukinn meiri hluta að gilda ef ríkisstjórn vildi það, en ef ríkisstjórn vildi það ekki, þá ætti það ákvæði í þingsköpum Alþingis að víkja?