Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:48:27 (3714)

1998-02-12 10:48:27# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:48]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að pexa um þessa atkvæðagreiðslu frekar en orðið er. Ég ætla bara að segja við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það er rangt sem hún sagði áðan. Það var ekki verið að biðja um það eitt að málið kæmi til 1. umr. Það var verið að biðja okkur formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar um það að frv. yrði að lögum milli klukkan tólf og eitt daginn eftir, á þriðjudegi. Það var það sem var verið að biðja um og það var þess vegna sem stjórnarandstaðan brást við eins og hún gerði. Það er þess vegna röng uppsetning hjá henni sem fram kom í hennar máli áðan. (VS: Atkvæðagreiðslan ...) Atkvæðagreiðslan er upphaf á ferli. Hitt finnst mér alvarlegra að báðir formenn þingflokka stjórnarflokkanna taka undir þau sjónarmið sem fram koma hjá hæstv. utanrrh. Þau taka ekki undir það tilboð sem fram kom í ræðu minni áðan um það að við setjumst yfir það að ganga þannig frá þingsköpum að bráðabirgðalagavaldinu verði aldrei misbeitt með þeim rökum sem hæstv. utanrrh. flutti hér í gær.

Það er auðvitað hægt að ganga þannig frá texta þingskapanna og lögum þar með að þegar um það er að ræða að þingið er sérstaklega kallað saman, t.d. að sumarlagi, þá gildi um það tiltekin sérstök ákvæði sem geta að einhverju leyti verið önnur en þau sem gilda að öðru leyti varðandi meðferð þingmála. Þegar við tókum þessi mál upp vorið 1991, þá skrifuðum við inn í texta frv. áður en það var lagt fyrir þingið ákveðnar hugmyndir í þessu efni sem síðan urðu ekki að lögum vegna þess að menn fengust ekki til að taka á því. Ég tel að það sé grafalvarlegt mál ef málið liggur þannig að forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna vilja ekki fara í þessa vinnu. Ef þeir vilja halda svo þétt utan um rétt framkvæmdarvaldsins til að setja bráðabirgðalög, þá eru þeir með orðum sínum og yfirlýsingum (Forseti hringir.) að stofna samvinnunni hér, sem hefur í grófum dráttum verið góð milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili, í verulega hættu. Ég tel að það sé mjög alvarlegt umhugsunarefni að þeir skuli ekki með hálfu orði taka undir það tilboð sem hér birtist áðan.