Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:50:57 (3715)

1998-02-12 10:50:57# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:50]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þann úrskurð sem hann kvað upp í byrjun fundar. Ég vildi nefna það að við skulum fara okkur hægt að vísa til nágrannalanda um fordæmi varðandi þingsköp eins og hér var gert af formanni þingflokks Framsfl. þó að sjálfsagt sé auðvitað á þau að líta. En okkar aðstæður eru um margt aðrar og ekki ástæða til að gleypa allt hrátt sem að utan kemur. Það á m.a. við um það að ræða mál við 1. umr. í þinginu sem ég held að sé mjög þýðingarmikið að gert sé eins og störfum og aðbúnaði nefnda er háttað hér.

Ég vil líka vara mjög við þeirri hugsun sem fram hefur komið, að taka upp aukna beitingu bráðabirgðalagavalds. Ég hélt að það viðhorf væri að komast á að að falla ætti frá beitingu bráðabirgðalaga nema í allra ýtrustu neyð eða ef alveg sérstök óvenjuleg tilefni skapast. Það er kannski það sem veldur því að skrefið var ekki stigið til fulls að afnema réttinn til að setja bráðabirgðalög. En ég vil ganga mjög langt í þeim efnum og ég andmæli öllum hugmyndum um að fara að rýmka til um þau efni eða veifa þeirri svipu gagnvart þinginu sem situr allt árið. Aðstæðurnar eru breyttar frá 1991 eftir að þingtíminn var lengdur. Alþingi situr í raun allt árið þannig að það er mjög auðvelt og eðlilegt að kalla þing saman ef þörf er á lagasetningu þar sem áður var gripið til bráðabirgðalaga.