Túlkun þingskapa

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:55:01 (3717)

1998-02-12 10:55:01# 122. lþ. 66.91 fundur 216#B túlkun þingskapa# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Núv. ríkisstjórn hefur ekki beitt bráðabirgðalögum. Bráðabirgðalög eru afskaplega mikið vandræðaúrræði og ég hef verið mjög lengi þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að komast hjá því að beita bráðabirgðalögum. Í þeim anda var gerð breyting á þingsköpunum og þingið ekki leyst upp að sumrinu til þess að unnt væri að kalla það saman ef brýna nauðsyn bæri til lagasetningar. Ég lít ekki svo á að í orðum utanrrh. hafi falist nein hótun um að breyta þeirri vinnureglu sem ríkisstjórnin hefur fylgt, að forðast setningu bráðabirgðalaga. Hins vegar liggur það náttúrlega ljóst fyrir að ef það þarf að taka tvær nætur að koma máli á dagskrá auk eðlilegra nefndastarfa og dreifingar þingskjala, þá tekur það a.m.k. viku. Ef unnið er með og nýttir eru ýtrustu frestir þá tekur a.m.k. viku að koma lagaákvæði í gegnum þingið. Af þeirri ástæðu verður það freisting fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar að fara fremur í bráðabirgðalagasetningu en hina þinglegu leið.

Varðandi meðferð þess máls sem hér hefur verið til umræðu undanfarna daga eða öllu heldur komst ekki til umræðu, þá var einungis verið að tala um að fram færi 1. umr. Síðan hefði málið farið til hv. sjútvn. undir forustu hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, og þaðan af réði hann hraða málsins og framvindu. (Gripið fram í: Meiri hluti nefndarmanna ræður.)

Ég lít svo á, herra forseti, að við búum við allgóð þingsköp og það sé ekkert mjög brýnt að breyta þeim. Ég sætti mig ágætlega við þau ákvæði í þingsköpunum um fresti sem þarna eru. (Forseti hringir.) En ég tel að menn eigi að beita þeim af hófsemi og fyrst og fremst á síðari stigum máls, en ekki að neita að taka mál á dagskrá.