Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:25:56 (3722)

1998-02-12 11:25:56# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:25]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flutningsmönnum tillögunnar fyrir það frumkvæði sem þeir hafa sýnt og ég tel mjög mikils virði. Vert væri að staldra við nokkur atriði í þáltill. og gera að umræðuefni. Ég vil samt, með leyfi forseta, byrja á því að vitna aðeins til starfa sem hafa verið unnin á vegum félmrn. en hafa legið í láginni og ekki fengið verðuga umfjöllun en það lýtur að skýrslu sem var unnin á vegum nefndar sem félmrh. skipaði um úrræði til þess að auka atvinnuþátttöku fatlaðra. Sú skýrsla hefur að geyma mikinn fróðleik sem gæti einmitt nýst inn í þá umræðu sem hér fer fram.

Í henni er að finna ný viðhorf sem mundi ekki eingöngu gagnast fötluðu fólki til aukinnar atvinnuþátttöku heldur mundi það vera gagnlegt fyrir aðra hópa sem eiga undir högg að sækja á atvinnumarkaðnum um þessar mundir. Vil ég með þessum orðum hvetja hæstv. félmrh. til þess að draga skýrsluna upp og gera henni verðug skil og láta þær tillögur sem þar er að finna komast til framkvæmda.

Áðan var talað var um að atvinnuleysi hafi minnkað og það var rétt en atvinnuleysi hjá fólki sem á erfitt um vik hefur því miður ekki minnkað. Fatlaðir eiga nær enga von í atvinnu í þjóðfélaginu. Konur eiga undir högg að sækja eins og hefur verið rætt um í þingsölum í þessari viku og því miður gagnast þau nýju störf sem eru að skapast, t.d. vegna stóriðjuframkvæmda, hvorugum þessara hópa.

Ef ég vík aftur að þeirri hugmyndafræðilegu umræðu sem ég tel að sé verðugt að sækja inn í umræðuna þá byggist hún m.a. á því að líta með öðrum hætti á störfin, brjóta þau upp í minni verkþætti sem gætu einmitt gagnast hópum sem eiga erfitt með að sinna fullu starfi eins og margir fatlaðir og margar konur eiga erfitt með.

Ég hef staldrað við atvinnuleysi kvenna og ég varpa því inn í umræðuna að auðvitað verðum við að taka á því af fullri alvöru með nýjum hugmyndum. Atvinnuleysi kvenna hefur m.a. aukist vegna niðurskurðar í velferðarkerfinu eins og við vitum. Umönnunarstörfin eru hefðbundin kvennastörf og þeim hefur ekki fjölgað þrátt fyrir brýna þörf.

Til þess að bæta úr atvinnuleysi þessara hópa þarf öfluga endurmenntun og á það hefur verið bent, m.a. af sérfræðingum frá OECD, að það sé mjög mikilvægt að endurmenntun og umskólun sé eitt af því mikilvægasta sem þarf að grípa til ef sporna á við atvinnuleysi. Hins vegar vil ég líka aðeins staldra við 3. liðinn í þáltill. í upptalningu þeirra þátta sem hv. flutningsmenn leggja áherslu á að verði skoðaðir um það hvort megi líta á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur eins og nú er gert. Undir þetta tek ég heils hugar og tel mjög brýnt að þessu verði breytt eins og þarna er lagt til. Ég hef reyndar fyrr í vikunni lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvernig ráðuneyti heilbrigðismála túlkar greiðslur, t.d. í fæðingarorlofi, því að þarna hafa ráðuneytin kannski ekki fylgt eftir þeim hugmyndum sem eru viðurkenndar af öðrum aðilum. Þar vísa ég t.d. til Jafnréttisráðs sem hefur látið það álit frá sér fara að greiðslur í fæðingarorlofi séu launaígildi eða kjör.

[11:30]

Ég fagna því að þessi liður er þarna inni og tel að þetta sé hluti af þeirri nýju hugmyndafræði, þeirri nýju sýn og viðhorfum sem við þurfum að tileinka okkur til að koma á úrbótum vegna atvinnuleysis og til að bæta mannréttindi þeirra sem líða hvað mest fyrir atvinnuleysið. Ég fagna því þessari þáltill. og vona að hún fái verðuga umfjöllun og gott brautargengi á Alþingi.