Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:31:19 (3723)

1998-02-12 11:31:19# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessarar tillögu en vil þó sérstaklega vegna orða hæstv. félmrh. leggja nokkur orð í belg. Ég hef verið að velta fyrir mér þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra lagði fram á þessum morgni og einnig í gær þegar töluverðar umræður urðu um atvinnuleysi, sérstaklega atvinnuleysi kvenna. Það er sú staðreynd að í raun virðist vera skortur á vinnuafli í landinu. Fyrirtækin reyna að leysa þann vanda með því að flytja inn vinnuafl sem vekur síðan upp spurningar um hvernig búið er að því vinnuafli, hvaða réttinda útlendingar njóta hér og hvað verður um þá ef t.d. hráefnisskortur verður í fiskvinnslunni, eins og reyndar var bent á í fréttum nýlega.

Sú staðreynd að vinnuaflsskortur er í ákveðnum greinum, jafnhliða 3% atvinnuleysi, sýnir þær miklu breytingar sem orðið hafa á vinnumarkaði og jafnvel á hugarfari og aðstæðum fjölskyldna í landinu. En til að geta fullyrt eitthvað slíkt þyrfti maður að vita nákvæmlega hverjir það eru sem eru atvinnulausir. Einu staðreyndirnar sem ég hef varðandi þennan hóp eru þær, sem fram hafa komið, að verulegur hópur félagsmanna VR er atvinnulaus, við vitum að konur eru í miklum meiri hluta hinna atvinnulausu, við vitum að atvinnuleysið er mest á höfuðborgarsvæðinu þó að, vonandi tímabundin, vandamál hafi komið upp t.d. á Norðurl. v. og einnig hefur atvinnuleysi, sérstaklega meðal kvenna, verið viðloðandi á Suðurnesjum. Til að átta sig á þessu þarf að greina þennan vanda miklu betur en gert hefur verið. Ég hygg að þarna búi að baki töluvert miklar breytingar sem við kannski áttum okkur ekki á.

Þegar ég þekkti til í Danmörku á sínum tíma var sú regla þar við lýði og kann að vera að hún sé það enn, að þeim sem urðu atvinnulausir bar ekki skylda til að taka vinnu ef vinnan var ekki í þeirra atvinnugrein. Þar tíðkaðist ekki að t.d. iðnaðarmenn færu í verkamannavinnu eða einhverja aðra vinnu. Það kann að vera að búið sé að breyta þessu. Danir hafa mikla og slæma reynslu á þessu sviði og hafa gripið til ýmissa ráða gegnum tíðina til að draga úr atvinnuleysinu, en þeir voru líka mjög lengi að átta sig á þessu alvarlega fyrirbæri.

Þrátt fyrir þá góðu tillögu sem hér er, þá óttast ég að við munum horfa upp á viðvarandi atvinnuleysi á næstu árum. Það er því spurning í hagfræðinni hversu lítið atvinnuleysi getur í rauninni verið til staðar. Menn hafa haldið því fram að þetta sé nokkurn veginn eðlilegt ástand. Ég hef vikið að því áður, að eitthvert atvinnuleysi er alltaf til staðar vegna breytinga, vegna þess að verið er að loka fyrirtækjum og vegna alls konar breytinga sem eiga sér stað og getur tekið tíma fyrir fólk að finna vinnu.

Í Bandaríkjunum hefur verið talað um 4--5% atvinnuleysi. Það er talið eðlilegt ástand því þar er einfaldlega svo mikil hreyfing á vinnumarkaðnum. Þeir hafa því ekki miklar áhyggjur af því ástandi.

Hins vegar hefur Evrópusambandið gríðarlegar áhyggjur af hinu himinhrópandi atvinnuleysi sem þar er, sem er ef ég man rétt, í kringum 11% að meðaltali í Evrópusambandinu, en er yfir 20% í einstökum ríkjum eins og t.d. á Spáni, sem hlýtur að vera alveg gríðarlegt vandamál. Ég held því að ástæða sé til að horfa til Evrópusambandsins hvað þetta varðar, því þeir hafa setið yfir því á undanförnum mánuðum og líklega undanförnum tveimur árum, að móta nýja félagsmálastefnu og tengja hana þeim breytingum sem eru að verða á samsetningu þjóðfélaganna með mikilli fjölgun aldraðra. Þar er lögð áhersla á þá stefnu að reyna að halda fólki lengur á vinnumarkaði. Taka verður með í reikninginn að fólk hefur betri heilsu, er vinnufært lengur og umræða er innan Evrópusambandsins um að lengja þann tíma sem fólk er í fullri vinnu. Ekki verður það til þess að fjölga störfum en þá getur aftur komið á móti stytting hins vikulega vinnutíma, sem reyndar er umdeilt og hefur gengið afar erfiðlega að ná fram styttingu úr 40 stunda vinnuviku sem víðast hvar er við lýði, en einstaka ríki eru þó að brjóta þar ísinn.

Allt er þetta því mjög umhugsunarvert, hæstv. forseti, til hvaða ráða hægt er að grípa til að draga úr atvinnuleysi hér á landi. Ég ætla að koma að því betur þegar ég mæli fyrir næstu tillögu. Ég vil að lokum minna á að atvinnuleysinu fylgja gríðarleg félagsleg vandamál. Það er mjög mikilvægt og yfirleitt orðin hin viðurkennda stefna núna að reyna að virkja hina atvinnulausu. Þar hlýt ég að minna á það sem m.a. Jón Erlendsson hjá Upplýsingaþjónustu Háskólans hefur verið óþreytandi að benda á en það eru hinir gríðarlega miklu möguleikar upplýsingaheimsins, þeirra upplýsingakerfa sem við höfum aðgang að, sem gefa fólki auðvitað alls konar hugmyndir um það sem gera má, en fólk verður þá að vera í því ástandi að geta nýtt sér slíka tækni og þá reynir kannski ekki minnst á opinbera aðila hvað varðar menntun og endurmenntun. Ég vona að þessi tillaga verði til að auka umræðu um málefni atvinnulausra og að hún nái fram að ganga. Þótt atvinnuleysi sé 3% og hafi farið minnkandi er það þó nógu erfitt og okkur ber að reyna að ná því eins mikið niður og mögulegt er.