Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:39:14 (3724)

1998-02-12 11:39:14# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:39]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Með nýrri löggjöf um atvinnuleysistryggingar var sannarlega farið út á nýjar brautir. Í þeirri löggjöf er ný hugsun og ný viðhorf til þess hvernig megi meðhöndla þetta vandamál. Mér finnst þó umræðan um atvinnuleysi dálítið á skjön. Ég er ekki alveg viss um hvort flm., sem eflaust hafa nú allt gott í huga, líta þetta sömu augum og ég. Tilfellið er að á Íslandi er skráð atvinnuleysi mjög lítið. Við verðum að líta til þess að það er eðlilegt í slíku þjóðfélagi sem okkar að þær aðstæður komi upp á einum stað eða öðrum að þar verði atvinnuleysi. Atvinnureksturinn rís og hnígur. Þau atriði koma alltaf upp og þær aðstæður að einn atvinnuvegur verður fyrir áfalli, stendur verr að vígi en áður og atvinnuleysi getur myndast. Við þekkjum það á stöðum eins og t.d. Vestfjörðum þar sem atvinnuleysi er almennt óþekkt, að í ákveðnum þorpum geta orðið atvinnuleg áföll þannig að upp kemur tímabundið atvinnuleysi, sem er eðlilegt, og á þá fólk sem þar býr við mikinn vanda að stríða og eðlilegt að samfélagið reyni að koma til móts við það á allan hátt. Hins vegar liggur það fyrir á Íslandi, og allar kennitölur um efnahagslífið á Íslandi í dag segja að atvinnulífið sé heilbrigt. Atvinnulífið er heilbrigt hvar sem við lítum á það. Það er líka staðreynd að mjög mikil eftirspurn er eftir vinnuafli. Það vantar mjög víða vinnuafl og við erum að flytja inn í stórum stíl vinnuafl vegna þess að við fáum ekki Íslendinga til að vinna.

Það er nokkuð sem kallað er á ensku ,,náttúrlegt atvinnuleysi``, þ.e. að alltaf sé til staðar í hverju þjóðfélagi fólk sem einhverra hluta vegna getur ekki unnið, hefur ekki aðstæður til að vinna eða ástæður þess eru þannig að það treystir sér ekki til að vinna. Þetta er hlutur sem við verðum að líta á. Ég held að engin nákvæm rannsókn hafi farið fram á Íslandi á því hvað sé eðlilegt atvinnuleysi hér á landi, en 3% í öllum öðrum löndum þætti eðlilegt. Hins vegar er Ísland það lítið og menn svo nákomnir hver öðrum, að ég mundi giska á að eðlilegt atvinnuleysi, ef ég nota þetta enska hugtak, ætti að vera miklu minna á Íslandi en í öðrum stærri þjóðríkjum.

Hins vegar er ég alveg sannfærður um það bæði gegnum reynslu mína sem atvinnurekandi, eftir stjórnarsetu í Atvinnuleysistryggingasjóði og af fleiri ástæðum, að við eigum við það að búa á Íslandi, eins og alþekkt er í heiminum, að til er fólk sem einhverra hluta vegna getur ekki unnið. Ég held, herra forseti, að þegar við ræðum um atvinnuleysi eigum við að reyna að beina sjónum okkar í þá átt. Hvernig má það vera? Hvernig er komið fyrir því fólki sem getur ekki, má ekki eða kann ekki að vinna? Það er mjög alvarlegt. Ég rak augun í það í haust þegar ég skoðaði staðtölur almannatrygginga, að öryrkjum á Íslandi fjölgaði á undanförnum árum um tæp 10% á ári. Það þarf nú ekki mikið stærðfræðilegt innsæi til að sjá hvert stefnir með þjóð sem fjölgar um 1,5% en öryrkjum um tæp 10%. Ég spurði eftir því hvernig á þessu gæti staðið, hvort einhver hrörnunarsjúkdómur væri í gangi, eða heilsubrestur eða hvernig stæði á þessu. Ég fékk þau svör að fjölgun öryrkja á Íslandi stafaði fyrst og fremst af fjölgun félagslegra öryrkja. Takið eftir því. Það gat hins vegar enginn skilgreint fyrir mér í hverju það væri nákvæmlega fólgið að vera félagslegur öryrki. Ég þarf kannski heldur ekki á því að halda frekar en neinn annar. Félagslegur öryrki hlýtur að vera eitthvað skelfilegt, þ.e. maður sem einhverra hluta vegna hefur beðið það tjón á sálu sinni að hann er óhæfur til vinnu, treystir sér ekki til að taka þátt í lífsbaráttunni. Ég er sannfærður um að það atvinnuleysi sem við erum að skrá í mjög mörgum tilfellum er fyrst og fremst vegna persónulegra aðstæðna, félagslegra vandamála, sem við þurfum sannarlega að taka á. Ég er alveg viss um að þar koma t.d. eiturlyf við sögu, og önnur óreiða. Það vandamál er sannarlega mjög mikið, sem við köllum atvinnuleysi, sem á sér eins og ég sagði áðan eðlilegar skýringar að sumu leyti gagnvart einstaka stöðum og einstaka landshlutum vegna tímabundinna ástæðna. Hluti af þessu gæti sannarlega líka verið vandamál manna sem eru með skerta starfsgetu, eins og komið hefur verið inn á, en að stærstum hluta held ég að atvinnuleysi sé félagslegt vandamál sem við þurfum að horfa til þeim augum.

[11:45]

Vandamálið er ekki að efnahagslífið sé ekki fært um að taka við fólki, það er sannarlega fært um það. Við erum með eitthvað yfir tvö þúsund erlenda verkamenn og fleiri sem vilja koma. Atvinnurekendur eiga erfitt með að fá leyfi. Það er vandamál að fá leyfi fyrir verkafólk, ég þekki það mjög vel. Það kostar mikla eftirgangsmuni við félmrn. að fá leyfi þannig að innstreymið væri eflaust meira ef sú tregða væri ekki til staðar.

Ég vil nú ekkert nema gott segja um tillöguflutning eins og þennan en ég er sannfærður um að við eigum að beina sjónum okkar að innri málum samfélagsins. Það hlýtur eitthvað að vera að hjá okkur, þeirri heilbrigðu þjóð sem við teljum okkur vera. Það hlýtur að vera eitthvað að félagslega sem við ættum að rannsaka, reyna að átta okkur á því hvernig við getum komið þessu fólki til aðstoðar.