Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:46:27 (3725)

1998-02-12 11:46:27# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart hversu uppteknir stjórnarliðar eru af því að reyna að finna það út að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum séu ekki atvinnulausir. Ýmist er þetta fólk sem vill ekki fara í þá vinnu sem í boði eða það getur ekki unnið. Þetta eru félagslegir öryrkjar eða hvað það er sem tínt er til.

Til er fólk sem ekki getur unnið. Það er alveg rétt og til er fólk sem flosnar á unga aldri upp úr skólakerfinu. Unglingar flosna úr skólakerfinu án þess að nægilega sé rannsakað hvers vegna. Unga fólkið sem fellur út úr skólakerfinu strax 15, 16 eða 17 ára, dettur jafnframt út úr atvinnulífinu í ríkari mæli en aðrir. Hvað verður um ungt fólk, ómenntað, óþroskað, sem ekki hefur aðlagast samfélaginu? Það hefur flosnað upp úr skóla, tapað fyrstu vinnunni sinni, annarri vinnunni sinni, þriðju o.s.frv. Ég held að við ættum að staldra við þetta og reyna þá að gera eitthvað í því.

Í skýrslu sem unnin var um atvinnuleysið frá árinu 1994 var skoðað hvort á atvinnuleysisskrá væri fólk sem e.t.v. ætti ekki heima þar, hvort þarna væru öryrkjar sem ekki hefðu verið metnir, væru á atvinnuleysiskrá og ættu ekki möguleika á að taka við þeirri vinnu sem væri í boði. Þetta átti að skoða og í þessu yrði að vinna. Það sem ég hef gagnrýnt í þessari umræðu er einmitt að þessir hlutir hafa ekki verið gerðir. Tillagan sem við erum að ræða hér biður um að farið sé í að skoða þessa hluti og finna úrbætur til að hjálpa þessu fólki. Enn á ný nefni ég sjóðinn um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hefur hjálpað mörgum ungum mönnum og konum sem flosnað hefur upp úr skóla 15 ára, úr fyrsta, öðru og þriðja starfinu en komist inn á nýjar brautir í gegnum starfsnámið. Einnig þar dregur ríkisstjórnin úr.