Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:58:30 (3732)

1998-02-12 11:58:30# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk það á tilfinninguna, eftir að hafa hlustað á hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, að sú aukning sem orðið hefði á öryrkjum og atvinnulausum væri vegna þess að þegnar þjóðarinnar væru að verða meiri aumingjar. Mér finnst það ekki nægjanlega gott að á þessum háttvirta stað sé talað þannig til þeirra sem eiga um sárt að binda. Ég hef kynnst fólki, og efast ekki um að hv. þm. hafi gert það einnig, sem hefur sent tugi og jafnvel hundruð umsókna til fyrirtækja eftir störfum, farið í marga tugi viðtala án þess að fá nokkur viðbrögð. Það hefur sent inn umsóknir án þess að fá svör, og ég þekki fólk sem verið hefur gjörsamlega niðurbrotið eftir slíka reynslu. Þetta fólk á oft í sálrænum erfiðleikum upp frá þvílíkum hremmingum og í þeim tilfellum þarf oft sérstaka aðstoð.

[12:00]

Mér finnst samt ekki hægt að tala um það að þetta fólk sé orðin byrði á þjóðfélaginu. Þarna er fyrst og fremst um að ræða vandamál sem skapast hefur vegna ýmissa orsaka, breytinga á rekstri fyrirtækja ellegar vegna þess að þjóðin er í fjárhagslegum vandamálum sem kemur þá niður á fólki hér og þar sem enginn hefði í sjálfu sér getað séð fyrir. Í þessu lendir mjög duglegt fólk sem hefur bæði burði, getu og kraft til að gera það sem þjóðfélagið krefst af því en það fær ekki tækifæri til þess. Mér fannst þessi tilfinning dálítið erfið að sitja undir og þess vegna vildi ég koma í andsvari við hv. þm.