Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:06:50 (3736)

1998-02-12 12:06:50# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:06]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir prýðilega umræðu sem hefur farið fram um þetta mál. Ég tel að hún sé mjög gagnleg og Alþingi til sóma að þingmenn skuli gefa sér tíma til að ræða þessi mál og hugleiða. Hér hafa komið fram mjög margar ábendingar og bersýnilegt að menn nálgast þessi mál á býsna ólíkan hátt.

Ég tel að í þeim málflutningi sem fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, þá er bersýnilegt að hann nálgast þessi mál allt öðruvísi en flestir aðrir sem hér hafa talað. Það er bersýnilegt að hann gerir meira úr því að verulegur hluti þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá búi við önnur vandamál en þau að vera atvinnulausir en það finnst mér vera að nokkru leyti að drepa málinu á dreif.

Hér er bara verið að tala um þá sem eru atvinnulausir, þá sem eiga vinnuafl að selja. Það eru þeir sem verið er að tala um í þessari tillögu. Mér finnst það í raun og veru ekki skynsamlegt og slær mig alltaf illa þegar verið er að reyna að hlaupa frá vanda atvinnulausra með því að tala um aðra hópa sem eiga auðvitað við vanda að stríða í þjóðfélaginu hvort sem það eru öryrkjar eða þeir sem þurfa á framfæri að halda hjá félagsmálastofnunum eða eitthvað þess háttar, en það eru tilteknir afmarkaðir hópar. Hér erum við að tala um það fólk sem á vinnuafl að selja en enginn vill kaupa vinnuaflið. Það er það fólk sem við erum að tala um hér.

Ég skil ósköp vel að hæstv. félmrh. skuli reyna að telja fram þær tölur sem hann hefur um fækkun á atvinnuleysisskrá. Það er mjög gott og eðlilegt að hann skuli gera það. Hitt er hins vegar alveg ljóst að í raun hefur ekkert lagast í þjóðfélaginu að marki vegna atvinnulausra. Ef þrengir að aftur, ef hagvöxturinn minnkar á næstunni eða ef verulegur samdráttur verður í þjóðfélaginu, þá er alveg ljóst að við munum aftur standa frammi fyrir miklum her atvinnulausra í landinu. Það hefur ekkert verið gert sem í raun og veru tekur á móti þessu fólki með þeim hætti sem eðlilegt væri. Þess vegna er ekki hægt fyrir hæstv. félmrh. að hlaupa á bak við tölur um færri atvinnulausa því að þær segja ekki neitt um þá sem eru atvinnulausir og það er það fólk sem við erum að tala um en ekki eitthvert annað fólk.

Mér finnst einnig ódýrt í þessari umræðu að setja hana þannig upp, eins og mér finnst oft vera gert af ríkisstjórninni og einkum framsóknarmönnum, að frá árinu 1995 hafi þetta farið að lagast eins og það sé allt þeim að þakka. Veruleikinn er ekki þannig. Ég hef út af fyrir sig ekki lagt það sérstaklega í vana minn að taka upp hanskann fyrir þá alþýðuflokksmenn í sambandi við síðustu ríkisstjórn og tel að þeir séu alveg fullfærir um það. Ég tel líka að það hafi verið vond ríkisstjórn að mörgu leyti. En að setja málin þannig upp, eins og hæstv. félmrh. gerði áðan, að hattað hafi fyrir í þessum málum af því að Framsókn komst í ríkisstjórn, svo einfalt er málið ekki. Ef málið væri svo einfalt, þá ætti Framsókn alltaf að vera í ríkisstjórn og vera með alla þingmenn á Alþingi en það er ekki þannig.

Mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því að við erum með félagsleg kerfi af margvíslegu tagi sem hljóta alltaf að skarast og það er ekkert óeðlilegt við að þau skarist. Það er þannig t.d. í sambandi við tryggingastofnunarkerfin og örorkubótakerfin að tilhneiging er til þess t.d. á atvinnuleysistímum að þeim fjölgar heldur sem eru úrskurðaðir öryrkjar. Málið er bara þannig. Ólafur Ólafsson landlæknir hefur aftur og aftur bent á að beint samband sé þarna á milli, að þegar einstaklingur missir vinnu, þegar hann getur ekki lengur selt vinnuafl sitt, þá hrynur sjálfsmynd hans og þar af leiðandi hlýtur hann að leita inn á einhver önnur mið til að tryggja framfærslu sína. Þess vegna er það eðlilegt miðað við aðstæður, þó að það sé ekki gott, þá er það rökrétt miðað við aðstæður að þarna geti orðið nokkur fjölgun á örorkuskrám.

Eins er það með félagsmálastofnanirnar. Það hefur orðið nokkur fjölgun þar. En það fólk sem ég er að tala um er fólk sem á ekkert að selja nema vinnuafl sitt og verður þess vegna að lifa af því. En því er hafnað. Það vill enginn kaupa vinnuafl þess fólks. Ég vona að við séum ekki svo veruleikafirrt í þessum sal, ekkert okkar, að við getum ekki ímyndað okkur hvað það er vont og hvað það er sárt fyrir einstakling að geta ekki lifað af vinnunni sinni. Við skulum bara augnablik reyna að setja okkur í spor þess manns, að við værum sjálf í þeirri stöðu að enginn vildi kaupa þá þekkingu og verkfærni sem við þrátt fyrir allt eigum. Það er ægilegur dómur og það er dómur sem hinn atvinnulausi á ekki að bera einn. Grunnþátturinn í þessari tillögu er sá, að á atvinnuleysinu og þeim vanda sem því fylgir eigi að taka með samfélagslegri ábyrgð. Það er á ábyrgð okkar allra en ekki bara þeirra sem lenda í atvinnuleysinu. Það er aðalatriðið af því að atvinnuleysið er að nokkru leyti afurðin að markaðsþjóðfélaginu og því efnahagskerfi sem við höfum kosið að búa við og við höfum út af fyrir sig ekki flutt neinar tillögur um að breyta því kerfi í grundvallaratriðum.

Ég vil líka láta það koma fram, herra forseti, að í rauninni sýnir þessi tillaga að mörgu leyti hvað Alþingi er veikt. Auðvitað ætti Alþingi undir forustu félmn. að geta látið þessa könnun fara fram. Það er ekkert í þessari könnun sem Alþingi ætti ekki að geta látið fara fram. Við erum hins vegar svo vön því að biðja alltaf ríkisstjórnina um að gera þessa hluti af því að við erum undir hælnum á framkvæmdarvaldinu að því er varðar sjálfstæðar ákvarðanir. Ef formaður félmn., hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, legði það til á næstunni að félmn. færi í þetta verkefni, þá er ég alveg sannfærður um að meiri hlutinn í félmn. mundi hafna því. Það er dálítið alvarlegt umhugsunarefni því að í öðrum löndum sem var vitnað til í sambandi við þingskapaumræðu fyrr í dag, fara þingnefndirnar í slík verk, þær kalla fyrir fólk, þær gefa út skýrslur, þær rannsaka mál og af þeim ástæðum er það sem við í þessari tillögu förum svo að segja bónarveg að félmrn. vegna þess að við eigum í raun engan annan kost.

Ég tel það mjög mikilvægt að hæstv. félmrh. taki þátt í þessari umræðu og hlýði á hana. Mér finnst hann taka vel þeim ábendingum sem þarna er um að ræða því hreyft er mörgum nýjum róttækum hugmyndum í sambandi við umræður um atvinnuleysi og atvinnuleysisvanda sem okkur flm. finnst að þurfi að fjalla rækilega um.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson blandaði sér í umræðuna og að mörgu leyti var ég honum fullkomlega ósammála. Ég var honum þó sammála í einu grundvallaratriði. Það er að nálgast eigi þessi mál út frá einstaklingunum. Með öðrum orðum að þegar maður verður atvinnulaus þá á að vera til samfélagslegt kerfi sem hjálpar viðkomandi manni að taka utan um hans vanda. Ég ætla að nefna dæmi um það sem ég á við.

Það vill svo til að ég þekki dálítið til nokkurra fjölskyldna í Noregi. Þar býr ein íslensk kona sem ég kannast við og hún hefur verið þar í vinnu í 20 ár. Hún hefur starfað við umönnunarstörf. Hún hefur verið með mjög erfiðan og veikan einstakling og sinnt honum á hverjum einasta degi í nærri 20 ár. Að lokum fór svo að þessi kona brotnaði undan því fargi. Hún fann að hún réð ekki við það og gat ekki hugsað sér að mæta í vinnuna aftur af því að þetta var svo erfitt farg sem á hana var lagt og hún fann að vinnan hennar skilaði engum árangri og engum breytingum á þeim einstaklingi sem þarna var um að ræða.

[12:15]

Í okkar landi hefði konan farið strax á atvinnuleysisskrá. Hún hefði orðið að gera það og hún hefði orðið að taka við svo að segja hvaða vinnu sem er sem rétt er að ófaglærðum einstaklingum. Í Noregi var tekið þannig á málinu að þegar konan missti vinnuna var henni boðin aðstoð og hún var ekki sett á atvinnuleysisbætur, heldur á eins konar biðlaun eða breytingalaun í eitt ár. Á meðan er verið að þjálfa hana upp, úr þessum vanda, úr þessum erfiðleikum, til að hún geti gengið upprétt inn í samfélagið aftur og tekið þátt í að þróa velferðarkerfið og skapa verðmæti í þjóðfélaginu. Þessa nálgun er ég að biðja um þannig að ekki sé litið á atvinnulausa einstaklinga eins og vandamál heldur sé litið á atvinnuleysið eins og vandamál sem einstaklingurinn verður fyrir.

Mér finnst þess vegna alveg hægt að ljúka þessu af minni hálfu með því að taka undir það sem hér kom fram að við þurfum að beina sjónum okkar að einstaklingnum og tryggja að tekið sé vel á móti honum því að það er ekki honum að kenna nema í algerum undantekningartilvikum að hann verður atvinnulaus heldur er það á ábyrgð okkar allra, m.a. okkar sem hér erum, bæði þingmanna og ráðherra. Að öðru leyti þakka ég fyrir þá ágætu umræðu sem hefur farið fram um tillöguna.