Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:36:34 (3743)

1998-02-12 12:36:34# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ímynda mér að ef atvinnuleysisskráin er skoðuð séu ýmsar ástæður að baki því fólki sem þar er. Eitthvað af þessu fólki vinnur e.t.v. svart og það er ástæða til að stugga því út af skránni. Eitthvað kann að vera af fólki sem ekki kann við sig í vinnu, getur ekki vaknað á morgnana, getur ekki tamið sér eða vill ekki temja sér þá hætti sem vinnumarkaðurinn útheimtir. Eitthvað er þarna um fólk sem er ekki vinnufært og ætti að vera á annars konar bótum. Þarna eru 20--25% sem eru í hlutastörfum og að einhverju leyti kunna hlutastörfin að vera sjálfvalin og þetta fólk gæti e.t.v. fengið vinnu allan daginn. Ég held að meginuppistaðan sé fólk sem getur unnið og vill vinna og ég tel að okkur beri skylda til, og til þess stendur líka fullur vilji, að hjálpa því til að finna sér störf.