Rannsókn á atvinnuleysi kvenna

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:58:57 (3746)

1998-02-12 12:58:57# 122. lþ. 66.2 fundur 250. mál: #A rannsókn á atvinnuleysi kvenna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er góð tillaga og eins og ég sagði í ræðu minni um fyrsta dagskrármálið er það svo að umræða um þessar tvær tillögur skarast. Við erum að tala um rannsókn og úttekt á atvinnuleysi, á langtímaatvinnuleysi annars vegar og rannsókn á atvinnuleysi kvenna og aðgerðir til að draga úr því hins vegar. Þetta eru afar mikilvæg mál og áhugavert væri að það næðist að afgreiða þau frá Alþingi og að þau fengju brautargengi þrátt fyrir að vera þingmannamál.

Ég harma að félmrh., sem að öðru leyti hefur verið duglegur að hlýða á umræðu okkar í morgun, skuli vera horfinn á braut en ég geri enga kröfu um það að hann sé kallaður í salinn.

[13:00]

Hér var umræða á miðvikudag um langtímaatvinnuleysi í fyrirspurnatíma og þar var m.a. bent á það að á sama tíma og ráðherrann og ríkisstjórn vekja mjög athygli á því að atvinnuleysi hafi minnkað, þá hefur atvinnuleysi kvenna verið um 6% allan tímann í tíð þessarar ríkisstjórnar þrátt fyrir að atvinnuleysi karla hafi á sama tíma verið allt að helmingi minna. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þegar svo góðar yfirlýsingar eru um vilja til að taka á, skoða og koma með úrbætur, að nú eru liðin þrjú ár af stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar og þrátt fyrir hin stóru orð í upphafi ferils hennar hefur ekkert verið reynt að kryfja þetta mál til mergjar með konurnar.

Það var líka vakin athygli á því hversu mikið atvinnuleysi kvenna var í Norðurl. v., eða nær 8%. Ráðherra svaraði í þessum fyrirspurnartíma og hvað kom þá í ljós? Hann vísar til þess sem hefur verið að gerast hjá Þormóði ramma á Siglufirði, í rækjuvinnslunni á Skagaströnd og í Fiski 2000 á Blönduósi og svo er vikið aðeins að aukningu hlutastarfa hjá Sjúkrahúsi Sauðárkróks. Þetta segir okkur náttúrlega hver hin hefðbundnu kvennastörf eru, hvaða störf það eru sem bjóðast konum sem eru með heimili og börn eða konum sem eru komnar á efri aldur og hafa ekki sérstaka menntun til að fara inn í hin sérhæfðu störf og hversu ótrygg þessi störf eru, t.d. störfin í fiskvinnslu þegar eitthvað gerist.

Annað kemur líka í ljós þegar skoðaðar eru atvinnuleysistölur og það er varðandi konur með börn á skólaaldri sem eru langstærsti hópur atvinnulausra og hér er aftur og aftur komið inn á það hvað þetta þýðir. Ég er sannfærð um að þetta er samfélagslegt vandamál. Við höfum ekki búið fjölskyldunum í landinu þau úrræði sem þarf til að börnunum sé vel sinnt þegar báðir foreldrar eru á vinnumarkaði og svo hitt sem kom fram í máli framsögumanns, að laun kvenna í þessum störfum eru svo lág að þegar um það er að ræða að vera kannski í hálfu starfi og vera heima hluta úr deginum þá er það betri kostur fyrir konurnar. Og þá er spurningin: Eru þetta tryggingabótasvik? Eða er þetta í raun og veru það sem fólk er að gera í kerfi sem er vanbúið af því líka að önnur úrræði skortir? Þetta eru samfélagsleg verkefni sem er eitthvað það brýnasta fyrir okkur að skoða og taka á og sem ég held að verði eitt stærsta verkefni okkar í þeirri samvinnu sem fram undan er hjá þeim sem eru að fara saman í stjórnmálastarfi.

Annað sem ég vil líka nefna er að í ljós kemur að konur rétt um fimmtugt eru hinn hópurinn sem er stærstur á atvinnuleysisskrá og það er alveg purkunarlaust talað um það í dag í þjóðfélaginu að konur sem komnar eru um fimmtugt séu bara ekki gjaldgengar. Þetta er líka eitthvað sem er öðruvísi en hjá körlunum og það má e.t.v. leiða að því líkur að þetta sé vegna þess hve vinnumarkaðurinn er markaðstengdur. Vinnumarkaðurinn hjá okkur er að verða sífellt markaðstengdari eins og hér kom fram í umræðunni í morgun. Sífellt meiri krafa gerð til sérhæfingar. Samkeppnin er mjög hörð og e.t.v. er það enn þá svo, a.m.k. hjá fólki á miðjum aldri, að þar sé fremur að finna menntaða karla en menntaðar konur fyrir ýmis þau störf sem samkeppni er um. En við hljótum líka að staldra við það sem oft er nefnt, hvort konur séu góður kostur. Konur eru feikilega góður kostur á vinnumarkaði. Það hefur næstum alls staðar verið staðfest. Þær eru vinnusamar. Þær mæta vel. Þær eru iðjusamar. Þær hafa yfirleitt gaman af sínu starfi. Þær skila starfi sínu vel og þær eru samviskusamar og félagslyndar. Þetta eru allt almennir kostir sem nefndir eru um konur af þeim sem eru starfsmannastjórar og af þeim sem eru með stóra vinnustaði. En af einhverjum orsökum er svo komið að konur virðast ekki gjaldgengar á vinnumarkaði þegar þær eru komnar um fimmtugt og það er auðvitað algerlega óviðunandi að ekkert liggi fyrir um það hvers vegna þetta gerist.

Þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að mjög mikilvægt er að rannsaka hverjar séu orsakir atvinnuleysis meðal kvenna og skoða hvernig þetta skiptist á kannski ólíka hópa, m.a. með tilliti til aldurs, fjölskyldugerðar, menntunar, möguleika o.s.frv. Ég er mjög ánægð með það að líka verði reynt að komast til botns í því hvernig störfum fjölgar eða fækkar, hvar þeim muni fjölga eða fækka og að unnt sé að skoða hvert við erum að halda nú þegar dregur að aldamótum.

Virðulegi forseti. Það er orðið fáskipað í salnum enda á að fara að gera hlé. En ég vil minnast á það enn einu sinni að þeir sem hafa verið að reyna að rýna inn í framtíðina, þeir sem hafa verið að skoða vinnumarkaðinn og möguleika ungs fólks í framtíðinni segja að það sé alveg ljóst að fólk verði að mennta sig til tveggja, þriggja starfa á næstu öld. Enginn muni geta menntað sig á einhvern hátt í eina gerð af starfi. Þeir sem fara í háskólanám muni jafnvel þurfa að taka tvær gráður eða þrjár til að eiga möguleika á að fara milli þeirra starfa sem breytast á nýrri öld. Og hvað þá um hina sem ekki hafa sæmilega starfsþjálfun eða þá sem flosna úr skóla? Þess vegna er lykilatriðið líka í þessu dæmi: Starfsmenntun og menntun. Þetta er hitt stóra verkefnið, virðulegi forseti, sem bíður okkar, þess fólks sem hefur jafnaðarstefnu og félagshyggju að leiðarljósi og ætlar sér að starfa saman hér á komandi árum og breyta því sem þessi ríkisstjórn hefur verið of úrræðalaus til að gera.