Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 13:54:43 (3751)

1998-02-12 13:54:43# 122. lþ. 66.3 fundur 251. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða málefni einstakra starfsmanna sem hafa borið á góma í þessari umræðu eða hvort svínað hafi verið á einhverjum. Eftir því sem ég man best voru rök fyrir því að viðkomandi ráðuneytisstjóri tók ekki við starfi sínu strax, það voru veigamikil verkefni sem annar hafði verið að vinna og hæstv. iðnrh. óskaði eftir því að hann lyki þeim.

Ég hélt að þetta mál væri í sæmilegu samkomulagi og því hefði verið lent. Ég veit ekki betur en viðkomandi ráðuneytisstjóri taki við starfi sínu á einhverjum tilsettum tíma og ég treysti því alveg hreint fyrir fullt og fast að hann hefur áreiðanlega ekki verið iðjulaus í forsrn. þann tíma sem hann hefur verið þar innan dyra.