Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:17:50 (3756)

1998-02-12 14:17:50# 122. lþ. 66.4 fundur 366. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:17]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að þau hafi vissulega valdið mér vonbrigðum. Í fyrsta lagi veldur mér vonbrigðum að hann er að segja að það eigi ekki að hefja þessi námskeið í ársbyrjun 1998 eins og stendur í áætluninni heldur verði að bíða eftir að þáltill. ríkisstjórnarinnar verði samþykkt sem væntanlega verður ekki fyrr en undir þingslit eða í vor.

Í öðru lagi útskýrði hann ekki hvort þau námskeið sem þarna á að nota sem módel séu eitthvað í svipuðum dúr og þau sem lýst er í þessari tillögu, en þar er þess m.a. krafist að sérfræðingar á sviði jafnréttismála sjái um fræðsluna, að útbúið verði sérstakt námsefni og að alveg ákveðin stefna liggi að baki, þ.e. að verið sé að fræða m.a. um samþættingaraðferðafræðina. Mér finnst tilgangur fyrirhugaðra námskeiða svolítið óljós og kannski of almennur ef það á bara að kynna fyrirliggjandi löggjöf. Ég vil því spyrja nánar um hvort ráðherrann sé ekki á því að það þurfi að semja sérstakt námsefni og að til þess þurfi sérfróða aðila og hvort ekki þurfi einhvers konar nefnd, eins og lagt er til í þáltill. minni, til að sjá hreinlega um framkvæmd á þessu máli.