Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:48:00 (3769)

1998-02-12 14:48:00# 122. lþ. 66.6 fundur 441. mál: #A meðferð opinberra mála# (sektarinnheimta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að þetta mál sé komið fram m.a. vegna þess að í fjárlögum þessa árs voru skornar niður um 30 millj. kr. fjárveitingar til lögreglustjórans í Reykjavík og embættinu ætlað að ná þeim tekjum með bættri innheimtu sekta.

Í frv. eru nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt, þegar við 1. umr. málsins, að fá fram afstöðu ráðherrans til.

Í fyrsta lagi vil ég benda á skýringu við 2. gr. frv. en þar segir svo:

,,Verði frumvarpið að lögum er lagt til að þau öðlist þegar gildi. Við gildistöku laganna geta þau mál sem þegar eru til meðferðar hjá lögreglustjóra sætt þeirri meðferð sem lögð er til með frumvarpinu þótt brot hafi verið framið fyrir það tímamark.``

Ég tel að þetta ákvæði og túlkun þess orki mjög tvímælis, að ógreiddar sektir í kerfinu eigi að sæta meðferð samkvæmt þessu frv. þar sem hert er á sektarinnheimtunni, þó um sé að ræða brot sem framin voru áður en lögin taka gildi. Vissulega er búið að ákveða refsingu, en sektarinnheimtunni sjálfri er breytt. Maður horfir nokkuð til stjórnarskrárinnar í þessu efni, bæði 69. gr. og 77. gr. þar sem segir:

,,Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað.``

Hvað varðar 77. gr., þá er oft vitnað til hennar þegar verið er að ræða um afturvirkni þó að hún fjalli ekki um refsingu. Ég lít svo á að þetta orki nokkuð tvímælis af því að segja má að um nokkra afturvirkni sé að ræða. Í 77. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að enginn skattur verði lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið skoðað sérstaklega í tengslum við að láta ákvæði þessa frv. ná til þeirra mála og þeirra sekta sem eru ógreiddar í kerfinu. Má ekki líta svo á að um afturvirkni sé að ræða og skoða þurfi hvort hún sé heimil?

Í greinargerð með frv. er talað um að verði ekki gripið til aðgerða af þessu tilefni megi reikna með að fjöldi þessara mála falli niður vegna sakarfyrningar. Ég spyr því hæstv. dómsmrh., herra forseti: Hve mörg mál eru að nálgast það að falla undir sakarfyrningu? Ég er ekki viss um að þau mál séu svo mörg. Það kom fram í umfjöllun allshn. fyrir jól að í kerfinu eru enn mörg mál sem ekki hafa verið greiddar sektir af. Fram kom að samtals væru til innheimtu hjá embættinu dómsektir, viðurlagaákvarðanir, sáttir, umferðarmál og sakarkostnaður í 5.352 málum sem nemur tæplega 292 millj. kr. Auðvitað eru þetta miklar fjárhæðir sem ekki hefur tekist að innheimta. Maður veltir því fyrir sér hvort öll úrræði sem finna má í lögum um meðferð opinberra mála hafi verið notuð. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort reynt hafi verið að beita ákvæðum 115. gr., varðandi ógreiddar sektir, sem kveður á um aðför samkvæmt fyrirmælum aðfararlaga. Hefur verið látið reyna á það ef viðkomandi sekt er ekki greidd? Samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekki verið látið reyna á þetta ákvæði í mörg ár. Því er spurning hvort öll úrræði sem fyrir hendi eru hafi verið reynd til þess að innheimta þessar sektir.

Ástæða er til að nefna það að þegar við fjölluðum um þetta mál fyrir jól, þau mörgu mál og sektir sem ekki hafa verið greiddar að fjárhæð tæplega 300 millj. kr., kom fram að það er ekki vitað hvernig þessi fjárhæð skiptist milli brotaflokka. Það að innheimtuhlutfall sekta sé um 20--25% er auðvitað mjög lágt og sérkennilegt að ekki sé hægt að komast að því hvernig þessar sektir skiptist milli brotaflokka. Þetta lága innheimtuhlutfall, 20--25%, vekur auðvitað athygli.

Á fundi allshn. fyrir jól, kom í ljós að innheimtuhlutfallið annars staðar á Norðurlöndum er 90%. Þar annast lögreglan ekki innheimtu, enda mat minni hlutinn það svo að það ætti ekki að vera í verkahring hennar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki komi aðrar leiðir til greina en að lögreglan hafi á sinni hendi innheimtu sektanna.

Þetta eru athugasemdir mínar við þetta frv. Þær lúta sérstaklega að því sem kemur fram um 2. gr., um afturvirknina gagnvart þeim sektum sem ógreiddar eru í kerfinu fyrir gildistöku þessara laga. Ég tel einnig ástæðu til að skoða hvort sá frestur sem um er getið í 3. tölul. 1. gr. sé ekki of skammur. Þar segir:

,,Sinni sakborningur ekki sektarboði skv. 1. mgr. innan 30 daga frá því að það sannanlega barst honum eða einhverjum þeim sem birta mætti stefnu fyrir á hendur honum í einkamáli getur lögreglustjóri sent málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Dómari tekur ákvörðun um viðurlög með áritun á sektarboð lögreglustjóra.`` --- Hið síðastnefnda er meginbreytingin hér. --- ,,Slík áritun hefur sama gildi og dómur``.

Getur ekki verið að hér sé um óeðlilega skamman frest að ræða sem allshn. ætti að skoða sérstaklega?

Þetta eru fyrirspurnir mínar til hæstv. dómsmrh. nú við 1. umr. málsins.