Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:07:48 (3775)

1998-02-12 15:07:48# 122. lþ. 66.9 fundur 444. mál: #A almenn hegningarlög# (tölvubrot) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:07]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

Með frv. þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem miða að því að mæla refsiverða nánar tiltekna háttsemi sem tengist tölvum og notkun þeirra. Frumvarpið er samið af refsiréttarnefnd sem skipuð var af dómsmrh. 2. júní 1997.

Í skipunarbréfi nefndarinnar er sérstaklega tilgreint að eitt af verkefnum hennar sé að semja frv. til laga um refsinæmi svokallaðra tölvubrota.

Í nefndinni eiga sæti Benedikt Bogason, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumrn., sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn A. Jónsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. Ritari nefndarinnar hefur verið Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur í dómsmrn.

Hlutverk refsiréttarnefndar er að vera ráðuneytinu til ráðgjafar um málefni á sviði refsiréttar. Hefur nefndin þau föstu verkefni að fylgjast með réttarþróun á sviði refsiréttar og gera tillögur um breytingar á almennum hegningarlögum og sérrefsilögum eftir því sem ástæða þykir til. Einnig ber nefndinni að fylgjast með þróun erlendra refsilaga, einkum á Norðurlöndum, og alþjóðlegum viðhorfum á þessu sviði. Þá fól ég nefndinni að kanna hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga um líkamsmeiðingar og refsilög um ávana- og fíkniefni. Loks var nefndinni falið að endurskoða ákvæði V. kafla hegningarlaga um refsingar og VII. kafla um öryggisráðstafanir, sviptingu borgararéttinda og upptöku eigna. Auk þessara helstu verkefna nefndarinnar, sem ég hef nú rakið, munu henni verða falin ýmis fleiri verkefni við lagasetningu á sviði refsiréttar.

Ég vil láta þess getið að ráðuneytið mun á næstunni leggja aukna áherslu á endurskoðun refsilaga og lagasetningu á því réttarsviði. Skipun umræddrar refsiréttarnefndar, sem er fastanefnd á vegum ráðuneytisins, er veigamikill liður í því mikilvæga löggjafarstarfi.

Ég mun í stuttu máli gera grein fyrir því frv. sem liggur fyrir. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á hegningarlögum til að refsivernd verði næg gegn brotum sem framin eru með tölvum eða brotum sem beinast að tölvum. Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón af hliðstæðri löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Skal tekið fram að refsiréttarnefnd mun í framtíðinni fylgjast með umræðu hér á landi og annars staðar um þau refsiréttarlegu álitaefni sem upp kunna að koma vegna þróunar tölvutækni og sífellt vaxandi notkunar hennar.

Í 3. gr. frv. eru lagðar til breytingar á ákvæðum um skjalabrot í XVII. kafla hegningarlaganna þannig að þau taki ekki eingöngu til skriflegra gagna heldur einnig til gagna sem geymd eru á tölvutæku formi. Ekki leikur vafi á því að fölsun á efni upplýsinga, sem geymdar eru á tölvutæku formi, getur haft jafnalvarlegar afleiðingar og fölsun skriflegra gagna.

Í 4. gr. frv. er lagt til að nýr málsliður bætist við 1. mgr. 228. gr. hegningarlaganna þess efnis að sá sem verður sér á ólögmætan hátt út um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skuli sæta refsingu. Með þessu ákvæði er verið að sporna við innbrotum í tölvukerfi en slík innbrot eru algeng og geta orðið mjög alvarleg.

Lagt er til í 5. gr. frv. að nýtt ákvæði komi í XXVI. kafla hegningarlaganna vegna auðgunarbrota sem framin eru með tölvum. Þetta ákvæði er reist á því að ákvæði 248. gr. laganna um fjársvik og 249. gr. um umboðssvik veiti ekki í öllum tilvikum fullnægjandi refsivernd þegar auðgunarbrot eru framin með tölvutækni.

Loks er lagt til í 6. gr. frv. að eignaspjallaákvæðið í 257. gr. hegningarlaganna taki til þeirrar háttsemi að breyta, bæta við, þurrka út eða eyðileggja með öðrum hætti án heimildar gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu. Þykir nauðsynlegt að refsiverndin taki einnig til þessara verðmæta, ekki síður en þegar um líkamleg verðmæti er að ræða.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.