Réttarstaða barna til umgengni við báða foreldra sína

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 16:09:43 (3784)

1998-02-12 16:09:43# 122. lþ. 66.10 fundur 173. mál: #A réttarstaða barna til umgengni við báða foreldra sína# þál., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[16:09]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari umræðu vil ég upplýsa að í maímánuði á sl. ári skipaði ég nefnd sem ætlað er að fjalla um þau atriði sem umrædd þáltill. fjallar um. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að henni sé ætlað að kanna hvort úrræði gildandi laga til að koma á umgengni foreldra og barna séu fullnægjandi og ef ekki, hvaða leiðir komi þá til álita til úrbóta. Eins er henni ætlað að kanna hvaða upplýsingar og fræðsla standi foreldrum til boða í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál og hvernig auka megi þá fræðslu ef þess er talin þörf. Auk þess þarf að finna út hverjar raunverulegar samvistir barna eru við það foreldri sem þau búa ekki hjá. Jafnframt var nefndinni falið að kanna reynslu sem fengist hefur af sameiginlegri forsjá annars staðar á Norðurlöndunum.

Í nefndinni eiga sæti Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, formaður nefndarinnar, Oddný Vilhjálmsdóttir, sem tilnefnd var í nefndina af Kvenréttindafélagi Íslands, og Ólafur Þ. Stephensen blaðamaður. Þetta vildi ég að kæmi fram í tilefni af þeirri umræðu sem nú á sér stað.