Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 17:05:19 (3793)

1998-02-12 17:05:19# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:05]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hans við máli mínu og þó ekki sé mjög fjölmennt í þingsölum á þessum tíma ætla ég að leyfa mér að bæta svolitlu við, enda er það efni málsins sem skiptir mig máli en ekki fjöldi áheyrenda að þessu sinni fyrst ég hef eyru hæstv. landbrh.

Um leið og ég ítreka áhyggjur mínar vegna 11. og 12. gr. vil ég víkja aðeins að því að í 11. gr. sem á nú kannski að einhverju leyti að koma til móts við athugasemdir og áhyggjur manna vegna hinna stóru umdæma segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að ráða dýralækna til aðstoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna í einstökum umdæmum.``

Þetta er heimild. Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé líklegt að heimild af þessu tagi verði notuð. Það væri æskilegt að það upplýstist hér hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að nota þessa heimild ef ástæða þykir til samkvæmt efni máls og þá er ég að vísa til þess kostnaðar sem þessu að sjálfsögðu fylgir og ekki ætla ég að draga úr heimildinni nema síður sé. Um þetta hlýtur að verða spurt. Hér er tekið þannig til orða að ef dýralæknir væri ráðinn til aðstoðar, þá væri það vegna eftirlits og sjúkdómavarna í einstökum umdæmum, en ekki eru tilgreindar almennar dýralækningar. Ber að skilja þetta svo að sá hinn sami megi ekki stunda almennar dýralækningar ef um það semst í umdæminu?

Síðan segir í lok þessarar greinar varðandi eftirlitsstörfin og skoðanir, með leyfi forseta:

,,Gjald, sem nemur kostnaði, skal innheimta fyrir eftirlit og skoðanir samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengum tillögum yfirdýralækis.``

Þetta ,,sem nemur kostnaði``, ber að skilja það svo að það gildi um allt eftirlit og skoðanir sem reglur eigi að taka til eða falla einhver eftirlitsstörf og athuganir utan við heimild til gjaldtöku eða skyldu til gjaldtöku samkvæmt kostnaði? Þetta finnst mér ekki með öllu skýrt.

Aðeins síðan til áherðingar varðandi umdæmið --- ég nefni sérstaklega Austfjarðaumdæmið þó ég hafi einnig áhyggjur vegna Þingeyjarumdæmis, ekki síður reyndar --- þá vil ég vísa til þess að á síðasta ári bárust okkur þingmönnum Austurlands afrit af sjálfstæðu erindi vegna þess frv. sem þá lá fyrir þinginu um dýralækna. Og vegna Þingeyjarumdæmis sem nú er svo kallað, nr. 9, fengum við erindi einmitt frá sameiginlegum fundi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps og stjórnar Búnaðarfélags Vopnafjarðar sem haldinn var 13. mars 1997 og mótmælti svo vitnað sé beint í samþykkt, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þessi fundur mótmælir harðlega framkomnum drögum að frv. til laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu dýra sem fjallar m.a. um að leggja niður embætti dýralæknis í Norðausturlandsumdæmi. Fundurinn telur fráleitt að skerða dýralæknisþjónustu á þessu svæði.``

Þessu fylgir allítarleg greinargerð þar sem þeim rökum er m.a. mótmælt að engir dýralæknar fáist til starfa á þessu svæði. Því er mótmælt þar með orðréttri tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Síðastliðið ár hefur gengið illa að manna stöðu dýralæknis á svæðinu, en það segir ekkert um þörfina fyrir þjónustuna. Það eru engin rök að það fáist enginn dýralæknir til að starfa hér og þá sé best að leggja niður þetta embætti. Fundarmenn telja að ekki hafi verið nægilega reynt að fá dýralækni á svæðið.``

Síðan er bent á Vopnafjarðarsvæðið sem mjög mikilvægt landbúnaðarsvæði eins og allir taka undir sem til þekkja og vakin er athygli á því að í grg. með þessu frv. komi fram að gætt sé byggðarsjónarmiða og jafnræðis þegnanna og þetta megi ekki verða til þess að þjónusta sem landsmönnum er tryggð í dag breytist til hins verra, svo vitnað sé til athugasemda í grg. sem eru teknar upp úr því frv. sem lá fyrir í fyrra.

Virðulegur forseti. Þá vil ég nefna vegna Austfjarðaumdæmis að við þingmenn Austurlands fengum athugasemdir frá stjórn Sláturfélags suðurfjarða, dagsettar 10. mars 1997, og erindi frá stjórn Búnaðarfélags Breiðdæla, dagsett sama dag, 10. mars 1997, sem beinist sérstaklega að því að greinilega er stefnt að því að leggja niður það embætti sem nú er á suðurfjörðum, nánar tiltekið dýralæknisembættið á Breiðdalsvík. Og það er lögð rík áhersla á að ekki verði við því hróflað að Austurlandsumdæmi verði áfram skipt niður í svæði þannig að eftir á verði ekki ráðskast með staðsetningu héraðsdýralæknisembætta og Breiðdalsvík tekin sem dæmi þar um.

Virðulegur forseti. Ég vil segja, um leið og ég tek undir þessa athugasemd, að suðurfirðir eru svæði sem hefur átt undir högg að sækja, verulega raunar í atvinnulegu tilliti. Það á bæði við um sjó og sveitir, sjávarútveg og landbúnað og opinber störf sem hefur verið vegið að, alveg sérstaklega í Breiðdal að undanförnu. Þar gæti ég talið upp fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi í því tiltölulega fámenna en stóra byggðarlagi, að verið er að flytja til fólk úr störfum eða gera mönnum ókleift að starfa við opinber störf sem þar hafa verið og skipta mjög miklu fyrir byggðarlagið sem gefur að skilja.

En hér er auk þess um efnisleg rök að ræða þar sem er þetta stóra svæði, suðurfjarðasvæðið eða það svæði sem héraðsdýralæknir staðsettur á Breiðdalsvík hefur gegnt. Það segir sig sjálft að ef þeir tveir héraðsdýralæknar sem um er að ræða í Austurlandsumdæmi, ef þetta verður lögfest, settust að á sama stað --- ekki er ólíklegt að þá yrði horft til Fljótsdalshéraðs sem stærsta landbúnaðarbyggðarlagsins --- þá sjá menn í hvert efni er komið um þessa þætti. Ég leyfi mér því að vekja rækilega athygli, virðulegur forseti, á þessum atriðum.

Aðeins varðandi sérgreinadýralækna skv. 14. gr. Það kann að vera eðlileg skipan. Hins vegar sýnist mér sitt hvað óljóst um hvernig samskiptum héraðsdýralækna og sérgreinadýralækna verður háttað. Í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum, hver á sínu sviði, í samráði við héraðsdýralækna, með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, leiðbeiningar- og forvarnastarfi. Sérgreinadýralæknum má fela önnur verkefni, enda komi slíkt fram í erindisbréfi.``

Ég sé ekki hvaða verkefni það eru. Hér er greinilega grátt svæði á ferðinni.

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á 18. gr. þar sem kveðið er á um hugsanlegar ávirðingar dýralækna. Ég leyfi mér að vitna til þess sem tekið er fram í textanum og bið aðeins um þolinmæði virðulegs forseta. Ég er að ljúka máli mínu:

[17:15]

,,Uppfylli dýralæknir, sem hefur læknisleyfi, ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru er læknisleyfi var veitt, svo sem vegna bilunar á andlegri eða líkamlegri heilsu eða misnotkunar vímuefna, ber yfirdýralækni að greina ráðherra frá málavöxtum. Ráðherra skal leita álits dýralæknaráðs um slík mál. Svipta má viðkomandi dýralækni lækningaleyfi ef dýralæknaráð leggur það til.``

Ég hef ekki kannað hvort í öðrum lögum um opinbera starfsmenn sé að finna viðlíka ákvæði. Í gildandi lögum er ekki ósvipað orðalag en þar eru að vísu notuð orðin ,,eiturlyfjanotkunar eða drykkjuskaparóreglu``. Ég spyr hvort þetta séu ekki almennir þættir sem varða opinbera starfsmenn. Er ástæða til að ætla að dýralæknum sé hættara við að tapa geðheilsu eða fara út í óreglu? Eru bein fordæmi í læknalögum um hliðstæður þessa? Ég spyr um þetta vegna þess að það kemur mér á óvart þegar ég les frumvarpstextann. Nú hef ég reynt virkilega á þolinmæði virðulegs forseta og ég þakka fyrir þá þolinmæði sem virðulegur forseti sýnir mér.