Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 17:16:53 (3794)

1998-02-12 17:16:53# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla að svara í örfáum orðum því sem hér hefur komið fram. Ég byrja á því sem hv. þm. var að velta fyrir sér í lok ræðu sinnar, varðandi ákvæði og upptalningu í 18. gr. Ég hef nú auðvitað ekki læknalögin fyrir framan mig og veit því ekki hvernig þau hljóða í þessu sambandi. Ég man þó eftir því frá því ég sat í embætti heilbr.- og trmrh. að þá átti ég viðræður um það við landlækni að þó nokkur erfið mál kæmu upp í þeirri stétt af því tagi að taka þyrfti á þeim sérstaklega þó ekki sé ástæða til að rekja það hér frekar.

Auðvitað þarf að gera töluverðar kröfur til þessara stétta og kannski finnst mönnum sem hér hafa setið yfir frumvarpstextanum ástæða til að setja skýrari reglur en almennt gerist með opinbera starfsmenn eða aðrar starfsstéttir. Ég skal þó ekkert um það segja hvort þetta er í samræmi við læknalögin eða hversu nærri þetta er hinum eldri lögum. Það skoðar nefndin að sjálfsögðu og hversu tilhlýðilegt það er að setja fram slíkar kröfur um eina stétt umfram aðrar. Ég hygg þó að rök séu fyrir miklum kröfum til opinberra starfsmanna í þeim embættum sem hér er fjallað um sérstaklega.

Tvær fyrirspurnir hv. þm. voru sérstaklega varðandi 11. gr. Annars vegar um heimild til að ráða dýralækna til aðstoðar ef þess gerðist þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna. Eftir því sem ég kemst næst og man eftir að hafa rætt um við höfunda frv. og yfirdýralækni, þá er heimildin til þess á álagstímum, t.d. í sláturtíð og þegar sérstök verkefni koma upp þannig að bæta þurfi við eftirlitslæknum. Ég man nú ekki hvort talað var sérstaklega um það í sambandi við sjúkdómavarnirnar en ef upp koma sérstök sjúkdómstilfelli eða pestir gæti það aukið þörfina á viðbótarliði. Ég held að hér sé ekki verið að tala um almenna dýralæknaþjónustu. Þó væri út af fyrir sig æskilegt að hafa heimild til að ráða dýralækna tímabundið, þótt ekki væri nema yfir sauðburðartíma, á hin stóru, strjálbýlu svæði, t.d. á Norðausturlandi og Austurlandi þar sem t.d. sauðfjárrækt er ríkjandi í búskap. Greininni mun þó ætlað annað hlutverk eins og hún hljóðar eftir því sem ég tel mig muna frá því farið var yfir frv. með yfirdýralækni og nefndarmönnum.

Varðandi seinustu málsgrein umræddrar greinar þar sem fjallað er um gjald fyrir eftirlit og skoðanir held ég að fullyrða megi að þetta sé nokkurn veginn í samræmi við það sem nú þegar er fyrir hendi. Í dag er tekið gjald fyrir þessa þjónustu og auðvitað er, svipað og í áðurnefndri grein, t.d. í afurðastöðvum og sláturhúsum. Ég hygg að þetta sé nokkurn veginn svipað því formi sem nú þegar hefur tekið gildi.

Tími minn er að renna út, hæstv. forseti, en varðandi vangaveltur hv. þm. um búsetu lækna, er ekkert sem segir að þótt þrír læknar séu búsettir í Þingeyjarsýsluumdæmi þurfi þeir allir að vera á sama stað. Þeir gætu auðvitað setið á þremur stöðum, sama á auðvitað við um Austurlandsumdæmið. Ef læknar fást til að sitja, annar á Egilsstöðum og hinn á Breiðdalsvík er ekkert sem segir sérstaklega hvar þeir skuli búa. Þó mun líklegra að þeir setjist að skammt hver frá öðrum til að hafa stuðning hvers annars í störfum sínum.