Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 17:22:37 (3795)

1998-02-12 17:22:37# 122. lþ. 66.13 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[17:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer nú svo að bæði ég og hæstv. ráðherra tæmum þann tíma sem við höfum til að ræða þetta mál, hér tveir saman á þingi og ekki fleiri að sjá. Þar á meðal sakna ég auðvitað þess að hér skuli ekki vera, virðulegi forseti, a.m.k. forusta landbn. þingsins til að taka þátt í þessari umræðu. Ég get nú ekki á mér setið, þótt það heyri undir störf þingsins, að nefna það hér.

Það sem ég vildi inna hæstv. ráðherra um varðar II. ákvæði til bráðabirgða sem ég hafði ekki vikið að.

,,Sé starf lagt niður á dýralæknir sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara rétt til biðlauna í samræmi við ákvæði í 34. gr. laga nr. 70/1996.``

Við þetta ákvæði til bráðabirgða eru engar skýringar. En hins vegar segir í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að í stað 111 millj. kr. sé áætlað að greiða 68 millj. kr. í föst laun en 31 millj. til greiðslna fyrir vaktir.

,,Ástæða þess að ekki dregur meir úr launakostnaði þrátt fyrir fækkun starfa úr 42 í 31 er sú að héraðsdýralæknum verður að einhverju leyti bættur upp tekjumissir vegna breytinga á vaktafyrirkomulagi. Þessu mati fylgir nokkur óvissa þar sem enn er ósamið um kjör dýralækna við breytt fyrirkomulag vakta.

Ekki verður hægt að bjóða öllum núverandi héraðsdýralæknum sambærileg störf hjá ríkinu. Ætla má að allt að níu einstaklingar fari á biðlaun.``

Hvaða einstaklingar, virðulegi forseti?

,,Kostnaður við biðlaun þeirra er um 16 millj. kr. sé gert ráð að jafnaði níu mánaða rétti.`` Hverjir eru þeir níu sem eru þarna á stokknum? Svo ég hafi nú ekki forskeyti á undan.